Ekki sjálfgefið að Eiður gæfi kost á sér

Eiður Smári Guðjohnsen snýr aftur í landsliðið eftir góða frammistöðu …
Eiður Smári Guðjohnsen snýr aftur í landsliðið eftir góða frammistöðu með Bolton. AFP

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir það ekki hafa verið sjálfgefið að Eiður Smári Guðjohnsen gæti gefið kost á sér í leikmannahópinn sem valinn var til að mæta Kasakstan í undankeppni EM þann 28. mars.

Eiður spilaði síðast með landsliðinu í umspilsleikjunum við Króatíu um sæti á HM í nóvember 2013. Hann hefur þótt leika vel með Bolton í ensku B-deildinni í vetur og Heimir tók undir að ánægjulegt væri að geta valið þennan markahæsta leikmann landsliðsins frá upphafi.

„Það er gott að fá hann aftur eins og aðra sem komu inn að þessu sinni,“ sagði Heimir á fréttamannafundi en auk Eiðs komu þeir Haukur Heiðar Hauksson, Jón Guðni Fjóluson og Guðlaugur Victor Pálsson að nýju inn í hópinn.

„Það var ánægjulegt að Eiður skyldi gefa kost á sér því það var ekkert sjálfgefið. Þau konan hans eiga von á barni á næstunni,“ sagði Heimir við fréttamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert