Jón Daði tekur einn dag í einu

Jón Daði Böðvarsson og Friðrik Ellert Jónsson ræða málin á …
Jón Daði Böðvarsson og Friðrik Ellert Jónsson ræða málin á æfingu landsliðsins í San José. mbl.is/Anna Marsibil

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Mexíkó á Levi’s Stadium á föstudaginn og eflaust eru margir fegnir því að aðeins er um vináttuleik að ræða. Í þann 29 manna hóp sem valinn var til að sækja Sílikondal Kaliforníu heim vantar lykilmennina Gylfa Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason en að auki eru nokkrir þeirra sem héldu utan að ná sér upp úr meiðslum. 

Þeirra á meðal er Jón Daði Böðvarsson, leikmaður Reading í Englandi, sem var frá gegn Norwich City síðasta laugardag. Þar var um að kenna meiðslum sem hann hlaut í leik gegn Wolves, þriðjudeginum áður.  

„Ég er allur að koma til,“ sagði Jón Daði þegar mbl.is náði af honum tali fyrir æfingu landsliðsins í San José. „Ég fékk svona létta tognun í vinstri kálfann, ekki mikil tognun bara lítil rifa, og því gat ég ekki spilað síðasta leik.“

Hann vonast enn til að geta spilað gegn Mexíkó en finnst ólíklegt að af því verði. Segist hann einfaldlega taka einn dag í einu.

Jón Daði Böðvarsson og Friðrik Ellert Jónsson sjúkraþjálfari skokka saman …
Jón Daði Böðvarsson og Friðrik Ellert Jónsson sjúkraþjálfari skokka saman á æfingunni í San José. mbl.is/Anna Marsibil

Litlu hlutirnir skipta máli

Hvað sem kálfanum líður er Jón Daði þó einkar lukkulegur með að vera sameinaður landsliðshópnum að nýju.

„Það er mjög góð stemming,“ segir hann. „Það er langt síðan að við hittumst síðast, ógeðslega gaman að hitta félagana sína, geta verið í íslensku umhverfi – þannig séð – og talað íslensku.

Litlu hlutirnir skipta nefnilega máli,“ heldur hann áfram. Úti séu leikmenn lítið í kringum landa sína enda flestir vinir og vandamenn búsettir heima á Íslandi. Eðlilega ráði enskan ríkjum.

„Þannig að það er alltaf gott að hitta landsliðið og finna fyrir því aftur að þú ert Íslendingur.“

Ferðin er hins vegar ekki skemmtisamkoma. Fram undan er stærsta verkefni karlalandsliðsins til þessa og tilhugsunin gæti auðveldlega orðið yfirþyrmandi. Jón Daði segist þó lítið hafa breyst í undirbúningi sínum, samanborið við EM 2016.

„Ég er bara alltaf á tánum, passa mig að hugsa ekki of mikið um HM sem er fram undan,“ segir hann. Betra sé að lifa í núinu og einbeita sér að Reading – ef hann spili vel þar verði hann í toppmálum fyrir heimsmeistaramótið.

„Það er alltaf bara einn dagur í einu og nýta hvern einasta dag á æfingu til að bæta sig um einhverjar prósentur sem leikmann. Mér finnst ég alltaf vera að bæta mig meira og meira sem árin líða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert