Þurfum einstakan eiginleika Hörpu

Markahrókurinn Harpa Þorsteinsdóttir er í landsliðshópnum.
Markahrókurinn Harpa Þorsteinsdóttir er í landsliðshópnum. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari hrósar happi yfir því að geta teflt Hörpu Þorsteinsdóttur á nýjan leik fram en hún er í 20 manna landsliðshópnum sem valinn var í dag fyrir leiki við Slóveníu og Færeyjar í næsta mánuði, í undankeppni HM.

Freyr segir Hörpu hafa íhugað að leggja landsliðsskóna á hilluna. „Hún var ekki viss þegar við töluðumst við fyrir áramót. Ég fagna því að hún hafi ákveðið að taka slaginn með landsliðinu og Stjörnunni áfram,“ sagði Freyr við fréttamenn í dag.

„Hún er „all in“ núna. Harpa er ekki bara búin að skora fullt af mörkum fyrir okkur heldur hefur hún ákveðinn eiginleika sem aðrar hafa ekki. Engin getur passað boltann eins og Harpa Þorsteinsdóttir. Það er eiginleiki sem við þurfum á að halda,“ sagði Freyr.

Söndru skipt út á föstudaginn langa?

Þjálfarinn fagnar því einnig að geta teflt Elínu Mettu Jensen og Sigríði Láru Garðarsdóttur fram á nýjan leik eftir meiðsli og veikindi. Markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir á hins vegar við meiðsli að stríða og fær næstu 10 daga til að jafna sig af þeim. Verði hún ekki komin af stað á þeim tíma verður nýr markmaður kallaður inn á föstudaginn langa.

Rakel Hönnudóttir reyndi sig í nýju hlutverki í landsliðinu í …
Rakel Hönnudóttir reyndi sig í nýju hlutverki í landsliðinu í Algarve-bikarnum. AFP

Söknuður að Dagnýju í sókninni

Ísland hefur leikið án Dagnýjar Brynjarsdóttur á þessu ári en hún á von á sínu fyrsta barni í sumar. Það setti sinn svip á leiki liðsins í Algarve-bikarnum:

„Við fundum gríðarlega mikið fyrir því sóknarlega. Við höfum tapað sóknarlegum styrk með því að missa hana. Við höfum svo sem lent í því áður, og það tekur sinn tíma að leysa þetta. Við þurfum betri tíma til að finna taktinn sóknarlega,“ sagði Freyr. Rakel Hönnudóttir hefur fengið að spreyta sig í stöðu Dagnýjar, á milli miðju og sóknar:

„Rakel spilaði frábærlega varnarlega og hún er ekki búin að spila verr en aðrar sóknarlega. Við höfum tapað ákveðnum vopnum með því að missa Dagnýju. Fyrir Algarve misstum við líka Fanndísi og Elínu Mettu, svo við misstum í raun alla sóknarþrenninguna. Elín Metta er komin inn og Fanndís að ná fyrri styrk. Við munum líka prófa, með tilkomu Hörpu, að láta Elínu Mettu spila þessa stöðu [sem Dagný leysti áður],“ sagði Freyr við fréttamenn.

Aðspurður um Katrínu Ásbjörnsdóttur, sem missti sæti sitt í hópnum, svaraði Freyr:

„Hún fékk tækifæri í Portúgal og það var ekkert sem sagði þar að ég ætti að halda henni í hópnum í stað þeirra leikmanna sem við völdum. Ég fagna því að það sé komin svona mikil samkeppni. Leikmennirnir sem við völdum í sóknarstöðurnar hafa reynst okkur vel og við treystum á þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert