Kemur ekki á óvart að okkur sé spáð titlinum

Valsmenn eru meistarar meistaranna.
Valsmenn eru meistarar meistaranna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst þessi leikur heilt yfir mjög fínn fyrir utan fyrstu og síðustu tíu mínúturnar," sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, eftir 2:1-sigur á ÍBV í Meistarakeppni karla í fótbolta á Hlíðarenda í dag. 

„Við vorum seinir í gang og það var hægt tempó í byrjun og svo settu Eyjamenn pressu á okkur á síðustu tíu. Mínúturnar á milli voru mjög fínar og við gerðum vel og komumst í 2:0. Við vorum með fyrri hálfleikinn og við hefðum átt að halda því."

Kaj Leo í Bartalsstovu minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks með fallegu marki. 

„Aðdragandinn að markinu sem við fáum á okkur er lélegur hjá okkur en Kaj Leo smellhittir boltann og gerir það frábærlega. Þegar þetta er bara eitt mark og við náum ekki að bæta við er þetta alltaf hörkuleikur. Andstæðingurinn getur alltaf laumað inn jöfnunarmarkinu."

Sigurbjörn segir stöðuna á leikmönnum Vals góða og allir séu klárir nema Arnar Sveinn Geirsson sem er að glíma við meiðsli. 

„Hún er mjög góð. Það eru nánast allir klárir í bátana fyrir utan Arnar Svein sem er ekki tilbúinn í upphafi móts. Aðrir eru klárir. Staðan á Kristni er öll að koma til. Hann hefði getað komið inn á í dag en við vildum ekki nota hann á endanum. Við sjáum hvað setur. Hann verður vonandi klár í næstu viku."

Ætti ekki að koma neinum á óvart

Flestir spá Valsmönnum Íslandsmeistaratitlinum í sumar og er Sigurbjörn bjartsýnn fyrir komandi tímabili. 

„Við erum bjartsýnir og vonandi verður þetta gaman. Ég man ekki eftir öðru en ríkjandi meisturum er spáð góðu gengi. Það ætti ekki að koma neinum á óvart af þeim sem hafa fylgst með knattspyrnu í gegnum tíðina að ríkjandi meisturum sé spáð titlinum. Við tökum því."

Hann útilokaði ekki að Valsmenn gætu bætt við sig miðverði áður en deildarkeppnin fer af stað í næstu viku. 

„Það er ekkert sem við erum að horfa á daglega. Við höfum alltaf sagt það að ef það leynist topp leikmaður einhversstaðar sem gæti styrkt hópinn okkar, skoðum við það alltaf, eins og öll önnur lið," sagði Sigurbjörn Hreiðarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert