Vorum ekki tilbúnar í þennan leik

Erna Guðrún Magnúsdóttir, fyrir miðju, í Kórnum í kvöld.
Erna Guðrún Magnúsdóttir, fyrir miðju, í Kórnum í kvöld. mbl.is/Hari

„Við byrjuðum ekki leikinn, það var stress í leikmönnum og við vorum eitthvað óöruggar,“ sagði Erna Guðrún Magnúsdóttir, fyrirliði FH, eftir 2:1-tap gegn nýliðum HK/Víkings í Kórnum í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Þegar við fengum boltann þá erum við bara að negla honum upp, við viljum spila en ekki kýla. Við getum tekið góða punkta úr síðari hálfleiknum en þær áttu betri fyrri hálfleik og settu tóninn.“

FH-liðið hefur getið sér gott orðspor fyrir agaðan og sterkan varnarleik en fékk engu að síður á sig klaufaleg mörk í kvöld.

„Já algjörlega, þetta eru varnarmistök. Það er engin talandi og við erum ekki mættar, við eigum að gera betur. Við erum þekktar fyrir sterkan varnarleik og það að geta unnið þessi lið sem eiga að vera fyrir neðan okkur.“

FH fékk þó nokkra leikmenn til liðs við sig í vetur sem gætu enn verið að finna sig í Hafnarfirðinum en Erna segir það enga afsökun.

„Við byrjuðum að spila saman allar í byrjun apríl, mér finnst það eiga að vera nægur tími. Við vorum bara ekki tilbúnar í þennan leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert