Farið að verða endurtekin saga

Harpa Þorsteinsdóttir á Samsung-vellinum í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir á Samsung-vellinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Harpa Þorsteinsdóttir talaði tæpitungulaust um vankanta Stjörnunnar eftir afar óvænt og svekkjandi 3:2-tap á heimavelli gegn botnliði Grindavíkur í 4. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við skoruðum ekki nógu mörg mörk, það er nokkurn veginn það sem gerðist. Það skiptir ekki rassgat máli hvað þú ert mikið með boltann, það skiptir máli hversu einbeittur þú ert í þeim færum sem þú færð. Þær fóru vel með sín færi og við gerðum það ekki,“

„Mér fannst við vera töluvert betri aðilinn í leiknum eða ég upplifði það þannig. En þær bara sýndu meiri gæði en við í kvöld.“

Stjarnan skapaði þó nokkuð af færum í leiknum en tókst ekki að nýta flest þeirra. Harpa segir þetta endurtekna sögu.

„Mér líður eins og þetta sé farið að verða endurtekin saga, þetta er framhald frá tímabilinu í fyrra. Við erum mikið með boltann en náum ekki að klára færin okkar og þá er þetta orðið meira en bara hausinn.“

„Það þarf virkilega að fara skoða hvað við erum að gera í sóknarleiknum hjá okkur. Við verðum að fara nýta þessi færi betur, það er ekki flóknara en það,“ sagði hún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert