Leikgleðin skilaði þremur stigum í hús

Guðmunda Brynja Óladóttir var kraftmikil í liði Stjörnunnar í kvöld.
Guðmunda Brynja Óladóttir var kraftmikil í liði Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var nauðsynlegt fyrir okkur að koma til baka eftir vonbrigðin á móti Grindavík,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, leikmaður Stjörnunnar eftir 1:0 sigur liðsins gegn HK/Víking í fimmtu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við breyttum aðeins leikskipulaginu og mér fannst það ganga vel enda uppskárum við þrjú stig. Við vorum að koma okkur í góð færi og það er erfiðasti hlutinn í boltanum. Það vantaði aðeins upp á einbeitinguna í færunum en það er eitthvað sem við lögum fyrir laugardaginn. Við áttum góðan fund eftir Grindavíkurleikinn og fórum vel yfir andlega þáttinn. Við fórum að leggja meiri áherslu á að reyna hafa aðeins gaman að þessu og það skilaði þessum þremur stigum í dag.“

Stjörnukonur hafa aðeins hikstað í upphafi móts en liðið er í fjórða sæti deildarinnar með 9 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar.

„Núna er einn dagur tekinn fyrir í einu og við einbeitum okkur bara að þeim leik sem er framundan, hverju sinni. Auðvitað viljum við blanda okkur í toppbaráttuna í deildinni en þetta er samt sem áður ekki í okkar höndum. Þór/KA og Breiðablik hafa hvorugt verið að tapa stigum, það er nóg eftir af sumrinu og við erum ekki að hugsa um önnur lið. Við einbeitum okkur að okkur sjálfum og svo sjáum við hverju það mun skila okkur í lok sumars.“

Birna Jóhannsdóttir reyndist hetja Stjörnukvenna í kvöld en hún skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu.

„Birna kemur inn í byrjunarliðið rétt fyrir leik. Hún átti ekki að byrja en nýtti tækifærið sitt vel. Hún skoraði frábært mark og sinnti varnarvinnunni vel. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir svona ungan leikmann að eiga svona góða innkomu og ég er sannfærð um að reynslan í kvöld muni nýtast henni vel í sumar,“ sagði Guðmunda að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert