Erum byrjaðir að skora, bið ekki um meira

Kristján Guðmundsson á Hásteinsvelli í dag.
Kristján Guðmundsson á Hásteinsvelli í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er gott að vera kominn með 8 stig það eru svona mín fyrstu viðbrögð eftir þennan leik,” sagði Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV eftir 2:0 sigur á KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Hásteinsvelli í dag.

„Næstu viðbrögð eru bara þau að hversu vel við komum inn í leikinn, við ætluðum að koma inn af þunga og náðum að nýta tvö föst leikatriði í byrjun leiks sem er mjög gott.”

Það voru 5 uppaldir Vestmannaeyingar í byrjunarliði ÍBV í dag.

„Þegar ég byrjaði hérna í fyrra var sett upp áætlun um hversu margir heimamenn ættu að vera í 18 manna hóp, það hefur gengið upp og ofan vegna ýmissa áfalla og annað sem hefur komið fyrir en þetta er bara flott. Núna voru nokkrir meiddir og þá fá aðrir sénsinn og þeir tóku hann.”

Vörn ÍBV var afar þétt og Halldór mjög góður fyrir aftan hana, ertu búinn að finna réttu blönduna?

„Það er best að fullyrða ekki neitt um það, við sögðum eftir leikinn við FH að við ætluðum að byggja ofan á þann leik og við höfum gert það. Við höfum ekki tapað síðan, gerðum 2:2 jafntefli við Val í bikarnum en svo er það næsta skref að gera þetta svona. Halldór var góður í markinu og vörnin mjög þétt. Við erum einnig byrjaðir að skora og ég get ekki beðið um mikið meira í augnablikinu.”

Eyjamenn eru komnir með 8 stig í fyrstu 7 umferðunum, sáttur við það?

„Hvað á maður að segja? Svo lengi sem við erum með í mótinu og erum að ögra liðunum fyrir ofan okkur.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert