Völlurinn er skraufþurr og erfitt að spila

Rúnar Kristinsson á Hásteinsvelli í dag.
Rúnar Kristinsson á Hásteinsvelli í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Mikil vonbrigði, byrjunin á þessum leik. Við létum Vestmannaeyingana vaða yfir okkur,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir 2:0 tap gegn ÍBV á Hásteinsvelli í dag.

„Fyrstu 10 mínúturnar þegar þeir skora þessi tvo mörk þá klárast leikurinn. Eftir það vorum við meira með boltann en náðum ekki skapa okkur neitt af færum.“

Eyjamenn skoruðu mörkin bæði á fyrstu 10 mínútum leiksins.

„Einhver hræðsla, Eyjamenn dældu boltum fyrir aftan okkur og pressuðu stíft. Við erum einum manni færri þegar þeir skora fyrra markið því Albert var út af þegar þeir fá hornspyrnuna og því er maðurinn sem skorar ódekkaður og nær að skora. Síðara markið er eftir aukaspyrnu og það eru föst leikatriði sem fella okkur hér í dag.“

KR-ingar náðu ekki að skapa sér nein færi í leiknum, hefurðu skýringu á því?

„Völlurinn er bara skraufþurr og boltinn skoppar mikið, erfitt að fá tempó á boltann og margar sendingar hjá báðum liðum lélegar. Það er erfitt að spila frábæran fótbolta í svona aðstæðum. Þetta er samt engin afsökun fyrir því að við töpum leiknum. Eyjamenn voru bara miklu grimmari.“

Albert Watson fer meiddur af velli eftir samstuð við Beiti.

„Staðan á honum er ekki góð núna en hvort þetta sé eitthvað langvarandi held ég ekki.“

FH-ingar bíða KR-ingum í næstu umferð. Þið hljótið að þurfa gera betur í þeim leik heldur en í dag?

„Já heldur betur, það verður erfiður leikur eins og allir leikir í þessari deild. Allir leikir eru erfiðir fyrir okkur. Við erum að reyna búa til eitthvað nýtt hérna og það gengur svona upp og ofan og við náum engum stöðuleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert