Einbeitingarleysi og mistök

Eiður Aron Sigurbjörnsson og Þórir Guðjónsson í háloftabardaga í leiknum …
Eiður Aron Sigurbjörnsson og Þórir Guðjónsson í háloftabardaga í leiknum í kvöld. mbl.is/Valli

Þórður Ingason markvörður og fyrirliði Fjölnis sagði við mbl.is eftir ósigurinn gegn Val, 0:2, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld að Grafarvogspiltarnir geti kennt sjálfum sér um hvernig fór.

„Við vorum betri á köflum í þessum leik en Valsmenn refsuðu okkur fyrir einbeitingarleysi eftir hornspyrnu og svo gerðum við mistök sem þeir refsuðu okkur illilega fyrir. Annars fannst mér leikurinn í nokkru jafnvægi, við mikið með boltann og mér fannst þeir ekki skapa sér mikið. Við getum sjálfum okkur kennt um hvernig fór," sagði Þórður við mbl.is.

„Í fyrra markinu skölluðum við boltann frá markinu eftir hornspyrnuna en vorum svo ekki á tánum með að ná honum. Patrick fékk hann og náði að skjóta óáreittur á markið. Þetta eru ekki mistök heldur einbeitingarleysi. Þetta var í raun í fyrsta skiptið sem Valur komst nálægt markinu okkar og þetta var þeirra fyrsta skot á markið.

Þetta sló okkur svolítið en við unnum okkur inní leikinn aftur. Náðum ekki að koma inn markinu sem þurfti. Það vantaði herslumuninn í kvöld. Valur er með hörkulið og refsar fyrir mistök. Við höldum bara okkar striki og spilum okkar fótbolta. Þá koma fleiri sigrar.

Mér finnst liðið verða betra og betra. Völlurinn var erfiður í kvöld en við reyndum alltaf að spila fótbolta og tókst það ágætlega á köflum. En á síðasta partinum vorum við ekki nógu góðir í kvöld og þar klikkuðu úrslitasendingarnar. Það vantaði lokahnykkinn," sagði Þórður Ingason.

Þórður Ingason er fyrirliði Fjölnismanna.
Þórður Ingason er fyrirliði Fjölnismanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnir er enn án Ægis Jarls Jónassonar sem meiddist í byrjun maí og Ingimundur Níels Óskarsson er frá út tímabilið eftir að hafa slitið krossband. „Ægir er rétt að byrja að æfa og byrjar væntanlega bara á fullu eftir HM-fríið. Það var ekki gott að sjá Þóri Guðjónsson fara af velli og halda um lærið en vonandi er það ekkert alvarlegt," sagði Þórður ennfremur en Þórir þurfti að fara af velli eftir 70 mínútna leik í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert