Getum ekki verið sáttir

Davíð Þór Viðarsson.
Davíð Þór Viðarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Það var svekktur fyrirliði FH-inga, Davíð Þór Viðarsson, sem ræddi við mbl.is eftir jafntefli FH og Keflavíkur í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en liðin áttust við í Kaplakrika í kvöld.

Þetta var þriðja jafntefli FH í röð í deildinni, gegn nýliðunum í Fylki og Keflavík á heimavelli og á móti ÍBV í Eyjum.

„Við getum ekki verið sáttir við þessi töpuðu stig í síðustu þremur leikjum okkar. Það er oft erfitt að vinna fótboltaleiki þegar þú færð tvö mörk á þig. Við fengum svo sem alveg færin til að skora fleiri en tvö mörk en við náðum ekki að nýta þau,“ sagði Davíð Þór við mbl.is eftir leikinn.

„Deildin er að spilast þannig að það eru allir að vinna alla en við erum núna búnir að fá þrjá möguleika til að komast á toppinn en það hefur ekki tekist. Við verðum að spila fyrri hálfleikinn betur en raun ber vitni. Seinni hálfleikurinn var miklu betri hjá okkur. Boltinn gekk miklu hraðar á milli manna en Keflvíkingarnir lágu eðlilega mjög aftarlega og gerðu sína hluti vel.

Í fyrri hálfleik vorum við ekki nógu þolinmóðir en í þeim síðari spiluðum við þokkalega þótt það dugði ekki til sigurs. Svona er manni stundum refsað fyrir að standa í lappirnar eins og gerðist hjá Lennon þegar hann komst í færið í seinni hálfleik,“ sagði Davíð Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert