Sá hvert hann ætlaði að kasta

Patrick Pedersen hefur skorað í fjórum leikjum Vals í röð.
Patrick Pedersen hefur skorað í fjórum leikjum Vals í röð. mbl.is/Árni Sæberg

Patrick Pedersen, danski framherjinn hjá Val, sagði við mbl.is í kvöld að sigrarnir skiptu meira máli en hver skoraði mörkin, en hann gerði fyrra mark Vals og lagði upp það síðara í 2:0 sigri Íslandsmeistaranna gegn Fjölni í Grafarvogi í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

„Þetta var kannski ekki besta fyrirgjöfin en ég sá að boltinn var að koma við vítateigslínuna, náði góðri snertingu á hann, sneri mér og skaut. Þetta var gott mark," sagði Pedersen þegar hann var beðinn um að lýsa fyrra marki Vals sem hann gerði á 19. mínútu. 

Seinna mark Vals kom þegar Pedersen komst inní innkast Fjölnismanns rétt framan við miðju og gaf síðan boltann á Kristin Frey Sigurðsson sem skoraði.

„Ég sá hvert hann ætlaði að kasta, innkastið var slakt og ég náði að stela boltanum. Kiddi átti gott hlaup og afgreiddi boltann vel í markið og það má segja að við höfum gert út um leikinn með þessu seinna marki," sagði danski framherjinn sem hefur nú skorað í fjórum leikjum Vals í röð. 

„Þetta var alls ekki auðvelt í kvöld, völlurinn var ekki upp á það besta og við vissum að þetta yrði afar erfitt. Það var því virkilega mikilvægt að ná þremur stigum hérna. Við vorum búnir að vera í dálitlum barningi en nú er þetta að koma, tveir sigrar í röð og mikið betri staða. Mér hefur vissulega gengið vel að skora í síðustu leikjum og það er alltaf gott en það sem skiptir mestu máli er að vinna leikina. Mörkin eru mikilvæg fyrir framherja og þau efla sjálfstraustið en stigin þrjú eru aðalmálið," sagði Pedersen, hógvær um eigið framlag í síðustu leikjum.

Sigurinn fleytir Val í annað sætið en liðið hefði með tapi verið um miðja deild. „Já, þetta er gríðarlega jafnt í ár en það kemur mér ekkert á óvart. Það eru mörg virkilega góð lið í deildinni í ár, margir góðir leikmenn og hún er jöfn og skemmtileg," sagði Patrick Pedersen.

Ánægður með uppeldisfélagið sitt

Hann er frá Hirtshals á norðurströnd Jótlands og hans uppeldisfélag er Vendsyssel frá nágrannabænum Hjörring. Vendsyssel tryggði sér á dögunum sæti í dönsku úrvalsdeildinni, með Íslendinginn Mikael Anderson í stóru hlutverki, og Pedersen kvaðst afar ánægður með þá niðurstöðu. 

„Ég styð liðið alltaf og það er stórkostlegt fyrir það að vera komið í efstu deild. Þetta virtist ætla að verða erfitt í lokin en það hafðist og það er virkilega skemmtilegt og mjög athyglisvert að svona lítið félag sé komið í úrvalsdeildina," sagði Patrick Pedersen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert