Skaut eins fast og ég gat í fjærhornið

William Daniels í baráttunni hjá Grindvíkingum.
William Daniels í baráttunni hjá Grindvíkingum. Ljósmynd/Víkurfréttir

Bandaríkjamaðurinn William Daniels var hetja Grindvíkinga sem unnu Fylkismenn, 2:1, í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. Mark Daniels tryggði Grindavík toppsætið eftir sjö umferðir í deildinni. 

„Ég var óheppinn í síðustu viku og það var að angra mig alla vikuna. Þjálfarinn veit hvað ég get og það var góð tilfinning þegar hann setti mig inn á, ég var nógu heppinn að fá gott færi til að skora og það tókst," sagði Daniels í samtali við mbl.is í dag. 

Fylkismenn voru með 1:0-forystu í hálfleik en hvað fannst Daniels breytast í seinni hálfleik? 

„Við urðum rólegri og jákvæðari. Við vissum að við gætum unnið leikinn ef við héldum áfram að sækja og það er nákvæmlega það sem gerðist."

Sigurmarkið kom úr skoti lengst utan af kanti og fór boltinn í framhjá ansi mörgum leikmönnum áður en hann endaði í fjærhorninu. Ætlaði Daniels að gera nákvæmlega þetta? 

„Nokkurn veginn, ég vissi að vítateigurinn væri stútfullur af leikmönnum og ég ætlaði að gefa fyrir en svo hætti ég við og skaut eins fast og ég gat í fjærhornið og ég var svolítið heppinn."

„Við erum á mjög góðum stað og við verðum að halda áfram að gera það sem við höfum verið að gera. Við vitum að við getum unnið alla leiki ef við höldum áfram að leggja svona mikið á okkur."

Einhverjir kölluðu Daniels ofurvaramann eftir leik og er hann ánægður með það hlutskipti. 

„Ég tek því svo sannarlega og kvarta ekki," sagði Will Daniels og hló. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert