Svona dómaradæmi hefur áhrif

Davíð Þór Ásbjörnsson, leikmaður Fylkis.
Davíð Þór Ásbjörnsson, leikmaður Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svona baráttuleikir geta farið á hvorn veginn sem er og það er leiðinlegt þegar að svona dómaradæmi hefur áhrif á það," sagði svekktur Davíð Þór Ásbjörnsson leikmaður Fylkis eftir 2:1-tap fyrir Grindavík á útivelli í Pepsi-deildinni í fótbolta í dag. 

Grindavík jafnaði eftir rúmlega klukkutíma leik úr vítaspyrnu sem dæmd var á Davíð. Dómurinn virtist hins vegar kolrangur þar sem Davíð fór fyrst í boltann og tæklingin var lögleg. 

„Boltinn hrekkur út og ég er á undan í boltann og pikka honum til hliðar. Grindvíkingurinn kemur seinna í það og sparkar í mig. Þóroddur stendur beint fyrir framan þetta og sér þetta vel og ég skil ekki hvernig hann fær það út að þetta sé víti þegar boltinn fer í áttina sem ég pikka honum."

Grindavík setti mikla pressu á Fylkismenn í byrjun seinni hálfleik og virtist aðeins spurning hvenær en ekki hvort jöfnunarmarkið kæmi. 

„Við vissum að þeir myndu koma dýrvitlausir í seinni hálfleikinn og við vissum að við þyrftum að standa það af okkur fyrstu 10-15 mínúturnar. Mér fannst þeir ekki vera að skapa sér mikið af viti."

Davíð er ósáttur við stigasöfnun Fylkismanna til þessa en liðið er í 10. sæti með átta stig. 

„Við eigum að vera með fleiri stig. Þetta er ótrúlega jöfn deild og það eru allir að vinna stig af öllum. Hver leikur fyrir sig er barátta og verður í allt sumar," sagði Davíð Þór Ásbjörnsson að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert