Valur vann loksins í Grafarvogi

Valsmenn fagna marki í Grafarvoginum í kvöld.
Valsmenn fagna marki í Grafarvoginum í kvöld. mbl.is/Valli

Valsmenn styrktu verulega stöðu sína í toppbaráttu Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld með því að sigra Fjölnismenn, 2:0, á Extra-vellinum í Grafarvogi.

Valsmenn eru komnir með 12 stig og að hlið efstu liða en Fjölnir situr eftir í miðri og hnífjafnri deildinni með 9 stig. Sigur Valsmanna er sá fyrsti sem þeir vinna í Grafarvogi í deildinni í tíu ár, eða frá 2008.

Fjölnismenn byrjuðu leikinn betur og voru ágengir framan af. Það var því aðeins gegn gangi hans þegar Valsmenn komust yfir á 19. mínútu. Arnar Sveinn Geirsson sendi frá hægri á Patrick Pedersen sem var utarlega í vítateig Fjölnis, sneri sér skemmtilega og skaut föstu skoti með jörðinni í vinstra hornið.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var um jafna baráttu að ræða en þó heldur meiri þungi í sókn Fjölnismanna. Guðmundur Karl Guðmundsson átti gott skot sem Anton Ari Einarsson í marki Vals varð vel. Birnir Snær Ingason fékk gott tækifæri rétt fyrir hlé þegar hann tók aukaspyrnu rétt við vítateigslínu Vals en hann skaut yfir markið og staðan 0:1 í hálfleik.

Valsmenn komust í þægilega stöðu á 54. mínútu þegar þeir fengu mark á silfurfati. Patrick Pedersen hirti boltann úr innkasti Fjölnismanna, lék upp að vítateig og renndi til vinstri á Kristin Frey Sigurðsson sem sendi boltann yfirvegað með jörðu í hægra hornið, 0:2.

Rétt á eftir var Pedersen nærri því að skora aftur en Þórður Ingason sýndi góð tilþrif í marki Fjölnis og varði vel skalla hans.

Fjölnir fékk tækifæri til að laga stöðuna þegar Anton Ari Einarsson varði í tvígang, fyrst frá Birni Snæ Ingasyni og síðan frá Almarri Ormarssyni sem fylgdi á eftir af stuttu færi.

Fjölnir 0:2 Valur opna loka
90. mín. 4 mínútur í uppbótartíma
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert