Ósáttir að vinna ekki 5:0

Davíð Þór Ásbjörnsson
Davíð Þór Ásbjörnsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er gott að geta bætt fyrir síðasta leik þótt þetta hafi ekki átt að vera víti. Það var gott að bæta upp fyrir þetta með marki," sagði Davíð Þór Ásbjörnsson, leikmaður Fylkis, eftir 2:0-sigur á Keflavík í 8. umferð Pepsi-deildarinnar í fótbolta í dag. Davíð gaf vítaspyrnu í 2:1-tapinu á móti Grindavík síðustu umferð en skoraði fyrra mark Fylkis í kvöld.  

Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, hefur verið duglegur að breyta um leikkerfi á leiktíðinni. Davíð hefur sjálfur spilað sem miðvörður og miðjumaður í mismunandi kerfum. 

„Leikur liðsins var frábær í dag, við hefðum getað valtað yfir þá. Við fengum til að skora fleiri mörk, það eina sem við getum við ósáttir við er að fara ekki með 5:0 úr þessum leik. Við erum að breyta um kerfi og mér finnst við jafn góðir í báðum kerfum. Það er gott að geta gripið til mismunandi kerfa. Á meðan ég er á vellinum þá er ég flottur."

Mark Davíðs kom úr skoti af um 40 metra færi og virtist boltinn fara beint á Sindra Kristinn Ólafsson sem missti hann klaufalega á milla handanna. 

„Ég hafði allan tímann trú á þessu, ég hef skorað nokkur svona mörk, það er alltaf gaman að horfa á eftir boltanum flökkta í markið. Það var enginn heppnisstimpill yfir þessu, það leit kannski þannig út á hliðina, en ef maður sér aftan á boltann sér maður þvílíkt flökkt á boltanum."

Fylkir fór upp úr 10. sæti og upp í 5. sæti með sigrinum. 

„Þetta er ótrúleg deild og að fara úr tíunda upp í fimmta með einum sigri sýnir að þetta er þétt og það verður örugglega þannig áfram," sagði Davíð Þór að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert