Aldrei víti því ég tók hann sjálfur niður

Steinþór Freyr Þorsteinsson var ósáttur með að fá ekkert út …
Steinþór Freyr Þorsteinsson var ósáttur með að fá ekkert út úr leiknum á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Mér fannst við heilt yfir vera betra liðið hérna í dag, svo einfalt er það. Jafntefli hefði eflaust verið sanngjörn niðurstaða,“ sagði Steinþór Freyr Þorsteinsson, leikmaður KA, eftir 3:1 tap liðsins gegn Val í áttundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

„Við áttum seinni hálfleikinn en það sem skilur liðin að hér í dag er færanýtingin. Þeir nýttu færin sín en það gerðum við ekki og það reyndist dýrt. Þeir eru með frábæra einstaklinga sem geta klárað leiki upp á sitt einsdæmi en við eigum alltaf að gera betur í mörkunum sem við fáum á okkur. Þetta minnti óþægilega mikið á leikinn gegn í fyrra þar sem þeir skora einmitt á upphafs mínútunum. Ég fékk það samt á tilfininguna að við vildum þetta meira en þeir. Mér fannst þeir vera sáttir í stöðunni 1:1 og það var ekkert sem benti til þess að þeir væru að fara skora þegar það kemur negla fyrir utan og boltinn fer í stöngina og inn.“

Steinþór Freyr og félagar hans í KA fagna marki gegn …
Steinþór Freyr og félagar hans í KA fagna marki gegn Víkingi Reykjavík í sjöundu umferð Pepsi-deildar karla í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki við dómarann að sakast

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var mjög ósáttur með Einar Inga Jóhannsson, dómara leiksins en Steinþór segir að þetta hafi verið erfiður leikur að dæma.

„Dómarinn var ekki ástæðan fyrir því að við töpuðum hérna í dag. Við gerum allir mistök, leikmennirnir líka. Bæði lið fengu sína dóma en hann réði alls ekki úrslitum leiksins. Það verður að koma betur í ljós í Pepsi-mörkunum hvort þetta hafi allt verið réttar ákvarðanir hjá honum. Það er ekki létt að dæma svona leiki þar sem að það er mikill hiti í mönnum en mér fannst hann komast ágætlega frá sínu. Menn voru til dæmis eitthvað að öskra víti þegar að Bjarni Mark fór niður í teignum en það var ég sem tók hann niður.“ 

Akureyringar hafa ekki byrjað mótið neitt sérstaklega vel en liðið ætlaði sér í Evrópubaráttu í upphafi móts. Í staðinn er KA í tíunda sæti deildarinnar með 8 stig en það er hins vegar stutt í efstu lið.

„Við erum að finna okkar rétta form. Spilamennskan hefur verið upp á við í síðustu tveimur leikjum gegn Víkingi R. og nú í dag. Við vorum virkilega hungraðir í fyrstu leikjunum okkar í fyrra en það hefur aðeins vantað hjá okkur í ár. Vonandi erum við komnir á rétta braut og við höldum svona áfram þá hef ég litla áhyggjur af okkur í sumar,“ sagði Steinþór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert