Hart barist á toppi og botni

Grindavík ætlar sér að halda toppsætinu.
Grindavík ætlar sér að halda toppsætinu. Ljósmynd/Hilmar Bragi / Víkurfréttir

Grindavík freistar þess að halda toppsætinu í Pepsi-deild karla í fótbolta er Breiðablik kemur í heimsókn á Grindavíkurvöll kl. 16 í dag. Grindavík vann dramatískan 2:1-sigur á Fylki í síðustu umferð á meðan Breiðablik er án sigurs í fjórum leikjum í röð, eftir að liðið var í toppsætinu með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Aðeins þremur stigum munar á liðunum og eru liðin bæði með fjögur mörk í plús. Breiðablik fer því í toppsætið með sigri, í bili hið minnsta.

Íslandsmeistarar Vals freista þess líka að vera í toppsætinu eftir umferðina umferðina. Valur er aðeins tveimur stigum frá Grindavík, en meistararnir fá heimsókn frá KA kl. 17. KA-menn eru með átta stig eftir fyrstu sjö umferðirnar og geta norðanmenn verið í fallsæti að lokinni 8. umferðinni. 

Til þess að það geti gerst verður Víkingur R. að vinna ÍBV í fallslag í Víkinni. Leikurinn hefst kl. 14. ÍBV er eins og KA með átta stig en Víkingur er í næstneðsta sæti með aðeins sex stig. Víkingur vann Fylki í 1. umferð en síðan hefur liðið leikið sex leiki í röð án sigurs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert