Ekki Fjölni til sóma

Bergsveinn Ólafsson var niðurlútur í leikslok eftir leik Stjörnunnar og …
Bergsveinn Ólafsson var niðurlútur í leikslok eftir leik Stjörnunnar og Fjölnis í dag. mbl.is/

„Hvað klikkaði ekki? Við mættum ekki til leiks í seinni hálfleik og þetta var bara leikur fullorðinna gegn börnum,“ sagði Bergsveinn Ólafsson, varnarmaður Fjölnis eftir 6:1 tap liðsins gegn Stjörnunni í Garðabæ í dag í áttundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

„Þeir keyrðu einfaldlega yfir okkur og ég verð að taka eitthvað af þessu á mig. Ég braut af mér þarna og gaf þetta víti þegar að þeir komast yfir í upphafi síðari hálfleiks. Eftir það vorum við bara óöruggir og ekki Fjölni til sóma. Það var einfaldlega lélegt hjá okkur.“

Þórður Ingason meiddist undir lok fyrri hálfleiks og Hlynur Örn Hlöðversson kom inn á í hans stað í upphafi síðari hálfleiks en hann var að leika sinn fyrsta leik fyrir Fjölni í efstu deild.

„Það er ekki hægt að skrifa þetta á Hlyn markmanninn okkar. Það vorum við sem mættum ekki til leiks og ef þú gerir það ekki þá er erfitt að ætla sér að spila einhvern fótboltaleik. Stjarnan er með það gott lið að þú mátt ekki leyfa þér svona gegn liði eins og þeim. Við þurfum að líta í eigin barm og reyna að spyrna okkur frá botninum núna og halda áfram.“

Bergsveinn segir 3-4-3 leikkferið henta liðinu vel, þrátt fyrir slæma …
Bergsveinn segir 3-4-3 leikkferið henta liðinu vel, þrátt fyrir slæma útreið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnir hefur verið að spila 3-4-3 í undanförnum leikjum en Stjarnan gekk á lagið í síðari hálfleik og nýtti sér plássið fyrir aftan vængbakverðina afar vel og komst trekk í tekk upp kantana hjá gestunum.

„Mér finnst þetta leikkerfi henta okkur vel ef ég á að vera hreinskilinn. Mörkin sem við erum búnir að vera fá á okkur, hingað til í mótinu, hafa ekki verið kerfinu að kenna. Við þurfum að fara vel yfir leikinn í dag og skoða hvað má laga og bæta,“ sagði Bergsveinn niðurlútur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert