Endurkoma liðsins stærsti sigurinn

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á æfingu í gær.
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á æfingu í gær. mbl.is/Valli

„Byrjunarliðið er ekki klárt en það er komin góð mynd á það. Það eru tvær til þrjár stöður sem ég ætla að gefa mér tvær æfingar í að taka lokaákvörðun um. Ég ætla að gefa leikmönnunum smá tækifæri til þess að takast á um þessar stöður,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á æfingu liðsins á Laugardalsvelli en liðið mætir Slóveníu í undankeppni HM annað kvöld, mánudagskvöld, á Laugardalsvellinum.

Ísland er í öðru sæti 5. riðils eins og sakir standa með 13 stig, tveimur stigum minna en Þjóðverjar, en sigur á mánudaginn myndi setja liðið í lykilstöðu fyrir síðustu leiki undankeppninnar sem fara fram í september í haust.

„Ég er að skoða það að spila með tvo miðjumenn og ég er hrifinn af því að spila með tvo framherja. Ég er að reyna að finna jafnvægi inni á miðsvæðinu, svo við getum þá spilað með tvo framherja í leiknum. Ég er búinn að fara mjög vel yfir fyrri leikinn á móti þeim og stelpurnar vita alveg hvað ég er að fara leggja áherslu á. Ég vil sjá liðið ráðast á markið, við erum ekki þjóð sem eigum að vera halda bolta mikið, þótt við höfum verið að gera það í þessari undankeppni.“

Elín Metta Jensen hefur ekki ekki tekið þátt í síðustu æfingum liðsins en hún er að taka inntökupróf í læknisfræði.

„Það er vissulega að Elín Metta geti ekki æft með okkur þessa fyrstu daga en svona er þetta bara. Hún klárar bara sitt og mætir svo á æfingu með okkur á morgun (í dag). Hún er í toppstandi og hún hefur farið vel af stað í Pepsi-deildinni með sínu liði. Hún hefur verið að hugsa um tvö verkefni að undanförnu og það er best fyrir hana og okkur að hún klári bara sitt og mæti svo með fulla einbeitingu til móts við landsliðið.“

Landsliðsþjálfarinn er stoltur ef endurkomu liðsins eftir vonbrigðin á EM …
Landsliðsþjálfarinn er stoltur ef endurkomu liðsins eftir vonbrigðin á EM í Hollandi 2016. mbl.is/Valli

Getum vonandi fagnað í haust

Fyrri leik liðanna lauk með 2:0 sigri Íslands á Športni park-vellinum í Lendava en Freyr ítrekar að þær séu með sterkt lið sem beri að varast.

„Slóvenska liðið verst mjög aftarlega á vellinum en á móti kemur að þær eru með tvo frábæra framherja. Ef þær færa sig framar á völlinn er stöðug ógn af þeim, þær eru góðir skotmenn og góðar í föstum leikatriðum. Við munum forðast það að reyna brjóta á þeim í kringum teiginn okkar. Þær eru ekki hraðar varnarlega og það myndast oft möguleikar að sækja í svæðið á milli bakvarða og miðvarða.“

Ísland á góða möguleika á að tryggja sér sæti á HM 2019 sem fram fer í Frakklandi sem yrði frábært afrek hjá liðinu sem hefur aldrei komist á heimsmeistaramótið.

„Ég finn ekki fyrir pressu en síðustu tvö ár hafa verið mikil rússíbanareið. Við höfum spilað mjög vel, lent í erfiðum meiðslum og svo auðvitað vonbrigðin á EM og allt sem því fylgdi. Að ná að rífa sig í gang aftur hefur verið stærsti sigurinn okkar og að ná að halda dampi í þessari undankeppni. Við erum stolt af því að vera í þessari stöðu og við ætlum núna að njóta augnabliksins og vonandi gerist eitthvað geggjað í haust,“ sagði landsliðsþjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert