Hefðum kannski þurfti meiri tíma

Harpa Þorsteinsdóttir á æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli.
Harpa Þorsteinsdóttir á æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli. mbl.is/Valli

„Þetta er spennandi verkefni og það verður gaman að spila loksins á heimavelli,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, framherji íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is á æfingu liðsins á Laugardalsvelli í gær en liðið mætir Slóveníu í undankeppni HM annað kvöld, mánudagskvöld á Laugardalsvelli.

Ísland er í öðru sæti 5. riðils eins og sakir standa með 13 stig, tveimur stigum minn en Þjóðverjar en sigur á mánudaginn myndi setja liðið í lykilstöðu fyrir síðustu leiki undankeppninnar sem fara fram í september í haust.

„Við undirbúum okkar alltaf eins fyrir hvern einasta leik sem við spilum. Þetta er snúið verkefni þannig að við þurfum að halda einbeitingu allan leikinn. Við höfum æft vel og núna þurfum við bara að halda rétt á spilunum til þess að ná í þessi þrjú stig. Við erum bara að einbeita okkur að leiknum gegn Slóveníu. Ef við vinnum og förum á toppinn þá verður bara ánægjulegt að sitja á toppi E-riðils, næstu mánuðina  og það myndi bara gera undirbúninginn fyrir leikina í september ennþá skemmtilegri.“

Harpa bregður á leik á æfingunni í gær á Laugardalsvelli.
Harpa bregður á leik á æfingunni í gær á Laugardalsvelli. mbl.is/Valli

Stigasöfnunin ákveðin vonbrigði

Harpa er lykilmaður í liði Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna en liðið hefur farið brösuglega af stað í fyrstu leikjunum og er í fjórða sæti deildarinnar með 9 stig.

„Stigasöfnunin hjá okkur hefur valdið ákveðnum vonbrigðum, ég get alveg viðurkennt það. Við erum sáttar við margt en svo er annað sem við erum alls ekki sáttar við. Það hefur vantað upp á stöðugleikann hjá okkur en mér finnst við hafa svarað vel fyrir okkur í síðustu leikjum. Við spiluðum vel gegn HK/Víkingi og Þór/KA eftir svona heldur brösótta byrjun og vonandi liggur leiðin bara upp á við núna.“

Það er ákveðin endurnýjung í liði Stjörnunnar en ungir og óreyndir leikmenn hafa fengið tækifæri í fyrstu leikjum liðsins.

„Það hefur verið mikil rótering á liðinu í vetur, sérstaklega frá síðasta tímabili. Við hefðum kannski þurft aðeins meiri tíma saman til þess að slípa okkur betur saman. Við erum að fá inn virkilega kröftugur stelpur núna, sem hafa svarað kallinu vel og við eigum fleiri leikmenn inni meira að segja sem hafa verið að spila með 2. flokknum þannig að ég er bara bjartsýn með framhaldið,“ sagði Harpa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert