„Þetta var náttúrulega bara rán“

Atli Guðnason.
Atli Guðnason. Eggert Jóhannesson

„Þetta var náttúrulega bara rán. Við áttum að fá víti þarna í restina, jafnvel tvö,“ sagði Atli Guðnason leikmaður FH eftir jafntefli liðsins við KR á Alvogenvellinum í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Dramatískt jafntefli í háspennuleik í Vesturbæ

FH-ingar vildu fá vítaspyrnu undir lok leiks og virtust hafa nokkuð til síns máls. „Hann átti bara að dæma víti, það var eins og hann hafi ekki fengið flautuna með sér þegar hann kom inná. Hann dæmdi ekkert fyrstu tíu mínúturnar,“ bætti Atli við en Þóroddur Hjaltalín dómari leiksins fór meiddur af velli í síðari hálfleik og Arnar Þór Stefánsson kom inn á í hans stað.

„Það var brot eftir brot eftir brot en ekkert dæmt. En þetta var jafntefli og við verðum að taka því. Eitt stig er betra en ekkert og við verðum að taka því.“

Aðspurður út í spilamennsku liðsins sagði Atli:

„Það er ekki hægt að horfa á leikinn í heild sinni. Við vorum ekkert sérstakir í fyrri hálfleik en miklu betri í þeim seinni og við tökum það með okkur. Þeir eru bara með eitt markmið og það er að setja boltann inn fyrir vörnina okkar og þeir gera það mjög vel og skoruðu markið sitt upp úr því. Við vorum ekki nógu góðir að verjast því í fyrri hálfleik en gerðum það vel í seinni hálfleik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert