Alltaf gott að fá traust

Selma Sól Magnúsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir eftir leikinn í kvöld.
Selma Sól Magnúsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selma Sól Magnúsdóttir, sem spilaði ljómandi vel í 2-0 sigri landsliðsins á Slóveníu, sagði í viðtali við mbl.is að það væri mjög góð tilfinning að hafa klárað þennan leik. Selma sagði jafnframt að það hefði verið mikil þolinmæðisvinna að brjóta varnarmúr slóvenska liðsins: „Það þurfti mikla þolinmæði. Og við vorum þolinmóðar. Og þegar fyrsta markið kom þá róaðist leikurinn aðeins og við tókum hann í okkar hendur eftir það.“

Það tók Ísland 55 mínútur að brjóta ísinn þrátt fyrir látlausa sókn íslenska liðsins. Þrátt fyrir það var Selma ekki farin að örvænta: „Við vissum að þetta tæki tíma. Og við vissum að við þurftum að bíða eftir þessu. Og við vissum að við værum alltaf að fara að skora í þessum leik. Og við biðum og það gekk upp í dag.“

Selma Sól var ein af þeim leikmönnum sem þurftu að stíga upp í fjarveru Söru Bjarkar og Dagnýjar. Selma sagðist ekkert hafa verið stressuð fyrir leikinn og var ánægð að fá traustið „Það er alltaf gott að fá traust og tækifæri og ég kom bara til að grípa tækifærið. Og það gekk fínt í dag. Þannig það var bara mjög gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert