Blikar unnu bug á öfl­ug­um Fylk­is­mönn­um

Aron Bjarnason rekur boltann í átt að Fylkismönnum á Kópavogsvelli …
Aron Bjarnason rekur boltann í átt að Fylkismönnum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik sótti á topplið Vals í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með 2:0-sigri á Fylki í 9. umferðinni á Kópavogsvelli í kvöld. Munar áfram einu stigi á toppliðinum tveimur en Valsarar unnu ÍBV í Vestmannaeyjum fyrr í dag, 1:0.

Gestirnir úr Árbænum hófu leikinn af miklu krafti, pressuðu hátt á vellinum og þvinguðu leikmenn Breiðabliks til að gera mistök er þeir reyndu að spila boltanum út úr vörninni. Það skilaði þó ekki marki, jafnvel þó Fylkir hafi fengið 11 hornspyrnur í hálfleik.

Heimamenn fengu þó sín færi líka, Gísli Eyjólfsson átti bylmingsskot í þverslá og Sveinn Aron Guðjohnsen skallaði sömuleiðis í slánna eftir hornspyrnu en nær komust liðin ekki og var markalaust í hálfleik.

Það voru svo Blikar sem brutu loks ísinn á 45. mínútu með laglegu marki. Andri Rafn Yeoman átti þá fínan sprett upp vinstri kantinn, gaf hann á Willum Þór Willumsson, fékk hann aftur og skoraði með fínu skoti í fjærhornið innan vítateigs.

Heimamenn tvöfölduðu svo forystuna og innsigluðu stigin þrjú tíu mínútum fyrir leikslok þegar Willum Þór skoraði af stuttu færi eftir skallasendingu frá Sveini Aroni.

Breiðablik er áfram í 2. sætinu með 17 stig, einu stigi frá toppliði Vals. Fylkismenn eru áfram í 6. sæti með 11 stig.

Breiðablik 2:0 Fylkir opna loka
90. mín. Fjórar í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert