Ætluðum að halda í hálfleikinn

Halla Marinósdóttir, fyrirliði FH, í baráttunni.
Halla Marinósdóttir, fyrirliði FH, í baráttunni. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

„Mér fannst við byrja leikinn af krafti og frábært að komast í 1:0 á móti Stjörnunni, við ætluðum að halda það út í fyrri hálfleik en fengum þá á okkur tvö mörk rétt á eftir,“ sagði Halla Marinósdóttir, fyrirliði FH, eftir 6:2 tap fyrir Stjörnunni í Garðabæ í kvöld en þá voru leiknir síðustu leikirnir í 8. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi-deildinni.

FH er nú í neðsta sæti deildarinnar með þrjú stig eftir einn sigur en fyrirliðinn lætur ekki slá sig út af laginu. „Við erum neðarlega og vitum það. Eftir hléið höfum við fengið þrjá erfiða leiki, gegn Stjörnunni, Val og Breiðabliki. Maður gengur að níu stigum vísum eftir þessi lið svo við erum ekki í áfalli yfir að ná ekki í stig gegn þeim þótt við hefðum auðvitað viljað fá einhver stig. Við erum alveg með sjálfstraust fyrir næstu leiki og það eru leikir sem við þurfum að vinna.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert