Erum með virkilega eitraða sóknarlínu

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við vorum bara kærulausar í vörninni og vel gert hjá FH að skora en við vöknuðum við markið, fórum að láta boltann ganga hraðar og uppskárum nokkur mörk fljótlega,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnukvenna, eftir 6:2 sigur á FH í Garðabænum þegar 8. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta lauk, Pepsi-deildinni.

„Mér fannst við byrja vel og vorum kraftmiklar fyrstu sex eða sjö mínúturnar en dettum svo aðeins niður og fáum á okkur mark en ég man eftir þegar leit á klukkuna og hugsaði að það væri nóg eftir enda erum við með virkilega eitraða sóknarlínu svo ég hafði ekki áhyggjur og Telma kom mjög sterk inn. Góður sigur og góður sóknarbolti þótt það sé svekkjandi að fá á sig þessi tvö mörk en fengum þrjú stig.“

Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar. „Við erum auðvitað ekki ánægðar með að vera í fjórða sæti deildarinnar, allt í lagi núna en ekki ef það væri kominn september og deildin búin. Það eru bara fimm stig í efsta liðið og við verðum nú bara byrja að hugsa um okkar leiki, þá fikrum við okkur upp stigatöfluna,“ sagði fyrirliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert