Telma með fjögur mörk og út af á sjúkrabörum

Jasmín Erla Ingadóttir, markaskorari FH, og Lára Kristín Pedersen úr …
Jasmín Erla Ingadóttir, markaskorari FH, og Lára Kristín Pedersen úr Stjörnunni eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert

Telma Hjaltalín Þrastardóttir stal senunni þegar Stjarnan vann FH 6:2 í Garðabænum í kvöld þegar 8. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta, Pepsi-deildinni, lauk. Ekki nóg með að hún skoraði þrjú fyrstu mörkin þegar sóknarleikur Stjörnunnar var frekar stirður, heldur lokaði hún leiknum með sínu fjórða en meiddist við það og var borin út af.

Skothríðin dundi á marki gestanna úr Hafnarfirði frá fyrstu mínútu, þegar þrumuskot Hörpu Þorsteinsdóttur small í slánni. Síðan þegar engin var uppskeran voru Stjörnukonur heldur værukærar og það nýtti FH sér á 17. mínútu þegar Marjani Hing-Glover hirti boltann af vörn Stjörnunnar, gaf fram á Jasmín Erlu Ingadóttur sem rakti boltann inn í teig, lék á Birnu Kristjánsdóttur í markinu og skoraði í autt markið.

Eftir að hafa jafnað sig aðeins hóf Stjarnan að sækja á ný og á 27. mínútu skoraði Telma Hjaltalín með þrumuskoti frá hægra vítateigshorni og það var ekki liðin mínúta þegar Harpa Þorsteinsdóttir dró að sér varnarmenn FH og gaf fyrir markið á Telmu, sem stakk fætinum fram fyrir varnarmann FH og kom Stjörnunni í forystu. Á 40. mínútu var Telma aftur mætt, rakti nú boltann af festu inn í vítateig FH vinstra megin og þrumaði yfir markvörðinn.

Í byrjun síðari hálfleiks fékk Stjarnan viðvörun í formi þess að Marjani þrumaði boltanum í slá Garðbæinga. Það hringi bjöllum og á 52. mínútu var Brittany Basinger var með boltann rétt við endalínu vinstra megin og gaf út í teig, þar sem Ásgerður Stefanía Baldursdóttir gaf sér tíma fyrir miðjum vítateig og þrumaði boltanum í slána og inn. Staðan orðin 4:1. Telma var ekki hætt og á 75. mínútu fékk hún frábæra þversendingu frá Írunni Þorbjörgu Aradóttur inn í miðjan vítateig FH og náði að pota boltanum fram hjá henni, staðan 5:1 og fjórða mark Telmu. Það kostaði samt sitt því Telma var borin af vellinum á börum. Á 88. mínútu kom svo síðasta mark Garðbæinga, frábær hnitmiðuð sending Írunnar inn fyrir vörn FH. María lék á markvörðinn og skoraði í autt markið. Veislunni var ekki lokið, klaufagangur í vörn Stjörnunnar og Marjani þakkaði pent fyrir, hirti boltann af markverðinum og þrumaði í slá og inn á 89. mínútu.

Eftir leiki kvöldsins með tapi FH í kvöld og eftir sigur Grindavíkur á KR á verma lið FH og KR botnsæti deildarinnar, FH í neðsta sætinu vegna markahlutfalls, á meðan Stjarnan heldur fjórða sætinu.

Stjarnan 6:2 FH opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert