Hundfúll að fá á sig mark

Halldór Jón Sigurðsson var sáttur með stigin þrjú gegn Stjörnunni …
Halldór Jón Sigurðsson var sáttur með stigin þrjú gegn Stjörnunni í kvöld. Sigfús Gunnar

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, var sáttur eftir 3:1-sigur á Stjörnunni í 9. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Akureyri í kvöld. „Þetta var mjög góður sigur. Ég er hundfúll með að við höfum fengið á okkur mark, mér fannst það setja svartan blett á leikinn. Við duttum aðeins í værukærð í seinni hálfleik þegar þetta var komið í 3:0. Ég var ekki ánægður með það því þetta gæti orðið keppni um markatölu.“

Stjörnukonur minnkuðu muninn með marki nánast frá miðju en Johanna Henriksson, markmaður Þór/KA gerði sig seka um slæm mistök í markinu. Aðspurður um atvikið sagði Donni: „Þetta var bara illa gert hjá markmanninum. Hún veit það alveg sjálf. Það þarf ekkert að fara í kring um það neitt ,bara hennar mistök og hún bara bætir fyrir það. Hún var stórkostleg í síðasta leik þannig hún átti þetta inni.“

Það styttist í að sumarglugginn opni en má búast við því að Þór/KA styrki sig?

„Það má eiga von á því að við fáum annan markmann til liðs við okkur. Við verðum með góða samkeppni um þá stöðu. Johanna er flottur markmaður en það er mjög hollt að hafa heilbrigða samkeppni um hverja stöðu fyrir sig. Við erum einnig að missa Söru Mjöll í skóla erlendis svo það má búast við markmanni," sagði Donni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert