„Þvílík liðsheild og topp frammistaða“

Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði sigurmarkið í kvöld.
Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði sigurmarkið í kvöld. mbl.is/Sigfús Gunnar

„Þetta var okkar langbesti leikur í sumar. Þvílík liðsheild og topp frammistaða,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, hetja Vals, í samtali við mbl.is eftir 1:0 sigur á Rosenborg í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

Eiður Aron skoraði sigurmark Vals þegar sex mínútur voru til leiksloka og kom Valsmönnum í góða stöðu fyrir síðari leikinn í Þrándheimi eftir viku.

„Það er búið að vera vesen að skora mörk hjá mér þrátt fyrir ágætis færi. Það er geggjað að skora, ég þarf að gera þetta mikið oftar,“ sagði Eiður og sagði leikinn hafa spilast nokkurn veginn eins og Valsmenn bjuggust við.

„Þeir voru meira með boltann og við þurftum að nýta þá sénsa sem við fengum, halda boltanum vel og vera skynsamir. Það gekk samkvæmt áætlun og við vorum virkilega sterkir varnarlega alveg frá fremsta manni. Við erum mjög sáttir,“ sagði Eiður Aron.

Sem fyrr segir mætast liðin á ný á heimavelli Rosenborg í Þrándheimi eftir viku og má reikna með því að norska meistaraliðið leggi allt í sölurnar í þeim leik.

„Algjörlega. Við förum í þann leik sem minna liðið. Hér náum við að halda hreinu og þeir fá varla færi finnst mér. Það gefur okkur mikla möguleika og við erum bara bjartsýnir.“

Gaman að glíma við Bendtner

Stærsta stjarna Rosenborg er danski framherjinn Nicklas Bendtner sem lengi lék með Arsenal og fleiri liðum. Hvernig var að glíma við hann?

„Mér fannst það bara skemmtilegt. Hann er þvílíkur leikmaður, og ekkert smá hávaxinn! Það var mikið um slagsmál, eitthvað sem ég elska. Hann er ekki mikið í það að hlaupa á bak við vörnina, vonar meira að boltinn detti fyrir sig, og þegar það gerist þá er alltaf hætta. Við þurfum að loka á hann eins og við gerðum í dag.“

Hvernig reiknar Eiður Aron með að undirbúningurinn verði fyrir síðari leikinn ytra?

„Nú förum við vel yfir þennan leik og sjáum hvað er hægt að bæta. Svo þurfum við bara að halda áfram þessu skipulagi, halda markinu hreinu og nýta föstu leikatriðin. Vera skynsamir á boltann, þéttir í vörninni og þá ættum við að fara áfram,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert