Við höfðum alltaf trú á þessu

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara Vals. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta var bara fínn leikur hjá okkur. Mikil vinna og mikil hlaup eins og við áttum von á og við erum mjög sáttir,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, við mbl.is eftir 1:0-sigur á norska meistaraliðinu Rosenborg í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

„Koma einhver lið á óvart í dag, vita menn ekki allt um alla? Við vorum búnir að sjá fullt af leikjum með þeim og vissum þeirra styrkleika og veikleika. Þetta var bara eins og við áttum von á. Við höfðum alltaf trú á því að við myndum standa í þeim og það þarf alltaf að hafa trú í þessum Evrópuleikjum, sérstaklega gegn stærri liðum. Þú verður að hafa trú á því að hlutirnir gangi upp og við höfðum hana allan tímann,“ sagði Ólafur.

Liðin mætast í síðari leiknum í Þrándheimi eftir viku, hvernig býst Ólafur við að síðari viðureignin verði frábrugðin þessum leik í kvöld?

„Markmiðið hjá okkur fyrir leikinn var að eiga raunhæfa möguleika þegar við færum til Noregs. Númer eitt, tvö og þrjú í þeirri vinnu var að fá ekki á sig mark. Það gekk frábærlega eftir en seinni leikurinn er annar leikur við aðrar aðstæður og við sjáum bara hvað gerist þar,“ sagði Ólafur. Hvernig metur hann möguleika Vals á því að fara áfram?

„Ég met þá bara ágæta. Við segjum það óhikað að við erum fínt fótboltalið og þorum að mæta þessu liði. Við erum alla vega 1:0 yfir,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert