Besta byrjunin í sautján ár

Guðmundur Steinn Hafsteinsson og félagar í Stjörnunni standa vel að …
Guðmundur Steinn Hafsteinsson og félagar í Stjörnunni standa vel að vígi eftir 3:0 sigur í kvöld. mbl.is/Hari

Íslensku félagsliðin fjögur sem leika á Evrópumótum karla í knattspyrnu í sumar unnu þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í 1. umferðinni og það er besta byrjun íslenskra liða á þessum vettvangi í sautján ár.

Valsmenn sigruðu norsku meistarana Rosenborg 1:0 í forkeppni Meistaradeildar Evrópu og í forkeppni Evrópudeildar UEFA vann FH 3:0 útisigur á Lahti í Finnlandi og Stjarnan vann 3:0 heimasigur gegn Nömme Kalju frá Eistlandi. ÍBV tapaði hins vegar 0:4 á heimavelli gegn Sarpsborg frá Noregi.

Það hefur tvívegis áður gerst að íslensku liðin hafi unnið þrjá af fjórum leikjum í fyrri viðureignum fyrstu umferðar. Síðast var það árið 2001 þegar Grindavík, KR og Fylkir unnu leiki sína og í eina skiptið þar á undan var árið 1999 þegar ÍA, ÍBV og KR léku sama leik. Í bæði skiptin fóru tvö íslensku liðanna áfram þegar upp var staðið.

Þó er ljóst að árangurinn frá 2013 verður ekki jafnaður. Þá voru tveir sigrar og tvö jafntefli í fyrri leikjunum en alls fimm sigrar og þrjú jafntefli, og öll fjögur liðin komust áfram, ÍBV, KR, Stjarnan og FH. Það hefur aldrei gerst fyrr eða síðar. Nokkuð ljóst er, vegna stórtaps Eyjamanna, að í ár komast í mesta lagi þrjú liðanna áfram.

Baldur jafnaði met

Baldur Sigurðsson jafnaði met þegar hann skoraði eitt marka Stjörnunnar í 3:0 sigrinum á Nömme Kalju í kvöld. Baldur varð þriðji leikmaðurinn til að skora fyrir þrjú íslensk lið í Evrópukeppni en hann hefur áður skorað Evrópumörk fyrir Keflavík og KR.

Arnar Gunnlaugsson lék þennan leik fyrstur þegar hann skoraði fyrir ÍA, KR og FH og Sigurvin Ólafsson fetaði í fótspor hans með því að skora fyrir FH, ÍBV og KR.

Þá skoraði Steven Lennon sitt fimmta Evrópumark fyrir FH og er ellefti leikmaðurinn sem skorar fimm mörk í Evrópukeppni fyrir íslensk lið. Þar á samherji hans Atli Guðnason markametið en það er 11 mörk.

Íslensk lið hafa verið Finnum erfið undanfarin ár en sigur FH í Lahti í dag er þriðji Evrópusigur íslenskra liða í Finnlandi í röð. KR vann SJK 2:0 í Finnlandi í fyrra og FH vann SJK 1:0 í Finnlandi árið 2015. Samtals hafa íslensk lið nú unnið 7 af 13 Evrópuleikjum sínum gegn finnskum liðum.

FH með fleiri útisigra en heimasigra

FH er eina íslenska liðið sem hefur unnið fleiri útileiki en heimaleiki í Evrópukeppni. FH-ingar eiga Íslandsmetið í fjölda sigurleikja í Evrópukeppni, þeir unnu sinn 21. Evrópuleik í dag þegar þeir lögðu Lahti að velli, og þar af eru 11 útisigrar og 10 heimasigrar. KR-ingar og Skagamenn hafa unnið fleiri heimaleiki, 12 talsins hvort félag, en KR hefur unnið 6 leiki á útivelli og Skagamenn þrjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert