Ætlum að bæta við leikmönnum

Guðmundur Karl Guðmundsson skallar í leiknum í kvöld.
Guðmundur Karl Guðmundsson skallar í leiknum í kvöld. mbl/Arnþór Birkisson

„Við spiluðum mjög vel, sérstaklega í seinni hálfleik og ég er mjög svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr þessum leik,“ sagði Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, eftir 2:1-tap fyrir Breiðabliki í 12. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld. 

Breiðablik var 1:0 yfir eftir slakan fyrri hálfleik hjá Fjölnismönnum. Þeir hresstust töluvert í þeim síðari, jöfnuðu leikinn en fengu svo sigurmark á sig frá Oliver Sigurjónssyni beint úr aukaspyrnu í blálokin. 

„Í seinni hálfleik létum við boltann fljóta hratt á milli manna og vorum að sýna kjark og áræðni í að taka menn á og reyna að búa eitthvað til, það vantaði í fyrri hálfleikinn.“

„Við vorum með allan seinni hálfleikinn „under control“ og gerðum hlutina hárrétt en svo fáum við mark á okkur í blálokin. Mér sýnist þetta vera flott spyrna hjá Oliver.“

Birnir Snær Ingason og Almarr Ormarsson fóru báðir út af með krampa. 

„Þetta var krampi og verri krampi en Almarr fékk, þeir fengu báðir krampa og það er eitthvað sem við þurfum að skoða.“

Hann segir vera í vinnslu að vera með Vlamir Berisha að láni út tímabilið og að Fjölnismenn ætla að styrkja sig frekar fyrir síðari hluta deildarinnar. 

„Það er í vinnslu, svo reynum við að bæta við einum eða tveimur leikmönnum,“ sagði Ólafur að lokum. 

Ólafur Páll Snorrason.
Ólafur Páll Snorrason. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert