Góður mórall en það vantar stig

Halla Marinósdóttir var svekkt í leikslok.
Halla Marinósdóttir var svekkt í leikslok. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

„Við byrjuðum fyrri hálfleikinn mjög vel og mér fannst við eiga hann en eftir að við fengum fyrsta markið á okkur datt spilið niður,“ sagði Halla Marinósdóttir, fyrirliði FH, eftir 3:1-tap fyrir HK/Víkingi í Pepsi-deildinni í fótbolta. 

FH var að spila ágætlega þangað til HK/Víkingur jafnaði í fyrri hálfleik. Eftir það voru gestirnir mun betri. Fyrsta mark HK/Víkings kom úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks er Melkorka Pétursdóttir braut mjög klaufalega af sér. 

„Eftir að við fengum annað markið á okkur hættum við að spila okkar bolta. Við vorum að flýta okkur of mikið og reyna að jafna. Það var hiti í leiknum og auðvitað var klaufalegt að brjóta svona en þetta er hluti af leiknum.“

„Við hefðum átt að spila seinni hálfleikinn eins og við spiluðum fyrri hálfleikinn og setja eitt til tvö mörk. Það hefur gengið illa að klára heilan leik 100 prósent, það er ekki nóg að vinna bara einn hálfleik. Við verðum að taka seinni hálfleikinn á mótinu og nýta það jákvæða í okkar leik.“

FH er óvænt á botni deildarinnar og hefur lítið gengið hjá liðinu í sumar, þrátt fyrir það segir Halla að stemningin í hópnum sé góð. 

„Stemningin er alltaf góð hjá okkur, sama þótt við séum að tapa. Við æfum vel og skemmtum okkur vel á æfingum. Það er góður mórall en okkur vantar stig,“ sagði Halla að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert