Hún reif í hárið á mér

Hildur Antonsdóttir (til vinstri) í leiknum í kvöld.
Hildur Antonsdóttir (til vinstri) í leiknum í kvöld. mbl/Arnþór Birkisson

„Við byrjuðum mjög illa og við vorum ekki alveg á tánum. Í seinni hálfleik spiluðum við mun betur og tókum baráttuna upp á næsta stig,“ sagði Hildur Antonsdóttir, leikmaður HK/Víkings eftir 3:1-sigur á FH í Pepsi-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Hildur náði í vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks er Melkorka Pétursdóttir togaði í hárið á henni innan teigs. Fatma Kara tók vítið og skoraði af öryggi úr spyrnunni og jafnaði í 1:1. 

„Þetta var barátta, það var smá hiti í þessu og það er bara gaman. Hún reif í hárið á mér og mér fannst þetta vera víti, maður kippir sér ekki mikið upp við það. Það var gott að ná þessu marki inn fyrir hálfleik, þá gátum við núllstillt og komið með meiri kraft í seinni hálfleik. Við ætluðum okkur að vinna hann.“

Kader Hancar, framherji frá Tyrklandi, kom inn á í hálfleik og kom með mikinn kraft í lið HK/Víkings, lagði upp mark og skoraði annað. Hún er aðeins 18 ára og var að leika sinn fyrsta leik hér á landi. 

„Hún er mjög góð, hún er góð að klára færin og er hröð. Það er ekki hægt að biðja um meira frá framherja. Þetta var mjög mikilvægur sigur í dag sem kemur okkur áfram. Við tökum næsta leik og reynum að fá stig út úr honum.“

Hildur skoraði annað mark HK/Víkings með afar fallegu skoti. 

„Ég er ekkert svakalega góð með vinstri en ég hitti hann þarna,“ sagði Hildur brosandi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert