Ekki ánægðar með gengi sumarsins

Lára Kristín Pedersen hefur spilað mjög vel fyrir Stjörnuna í …
Lára Kristín Pedersen hefur spilað mjög vel fyrir Stjörnuna í sumar. mbl.is/Eggert

„Mér fannst spilamennskan ágæt hjá okkur í kvöld en þegar uppi er staðið er það markið í fyrri hálfleik sem skilur liðin að,“ sagði Lára Kristín Pedersen, miðjumaður Stjörnunnar, eftir 1:0-tap liðsins gegn Breiðablik í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

„Planið í dag var að endurtaka ekki leikinn frá því í Garðabæ í fyrri umferðinni þegar við mættum þeim síðast. Við vildum vera þéttar fyrir og loka á þau svæði sem Blikarnir vilja sækja í og mér fannst það takast ágætlega. Harpa var ekki í byrjunarliðinu í dag en við erum með flotta leikmenn til þess að fylla skarðið sem hún skildi eftir sig. Við þurftum að aðlaga okkur að nýjum framherja í dag og mér fannst það ganga vel á köflum.“

Stjörnukonur eru í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig, 11 stigum á eftir toppliði Breiðabliks en liðið hefur skort ákveðinn stöðugleika í sumar.

„Við erum ekki ánægðir með sumarið okkar hingað til, það þarf ekkert að fara í neina hringi með það. Við vildum vera ofar í deildinni á þessum tímapunkti en við erum í bullandi séns í bikar og ætlum okkur að klára það dæmi. Við erum vissulega búnar að vera óheppnar með meiðsli í sumar en það er samt engin afsökun, við erum með sterkan leikmannahóp sem á að geta stigið upp í fjarveru lykilmanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert