Valsarar grátlega nálægt því

Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttunni í Þrándheimi í kvöld.
Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttunni í Þrándheimi í kvöld. Ljósmynd/NTB scanpix

Valsmenn féllu út úr undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á grátlegan hátt í kvöld þegar þeir fengu á sig vítaspyrnu í uppbótartíma og töpuðu 3:1 fyrir Rosenborg í síðari leik liðanna í Þrándheimi.

Rosenborg vann þar með einvígi liðanna samanlagt 3:2 en Valsmenn höfðu minnkað muninn í 2:1 skömmu fyrir leikslok og virtust á leið áfram í keppninni.

Í staðinn fara Valsmenn yfir í 2. umferð undankeppni Evrópudeildar UEFA og mæta Santa Coloma frá Andorra en Rosenborg heldur áfram í 2. umferð Meistaradeildarinnar og mætir Celtic frá Skotlandi.

Eins og búast mátti við var Rosenborg meira með boltann á meðan Valur lá aftarlega og beitti skyndisóknum þegar liðið vann boltann. Þetta leikplan Valsara gekk ágætlega upp í fyrri hálfleik. Rosenborg skapaði sér afar fá færi og þegar reyndi á greip Anton Ari vel inn í.

Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik allt þangað til á 54. mínútu þegar Stefan Apostolov, dómari leiksins, tók upp á því að dæma ódýra vítaspyrnu á Valsmenn. Úr henni skoraði Niklas Bendtner. Rosenborg skoraði síðan aftur á 71 mínútu þegar Anders Trondsen skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Bendtner.

Valsmenn gáfust ekki upp og á 84. mínútu fengu þeir vítaspyrnu. Ef vítið sem Rosenborg fékk var ódýrt var þetta sennilega ókeypis. Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði örugglega úr því og staðan því 2:1 fyrir Rosenborg og Valur áfram á marki skoruðu á útivelli.

Allt stefndi í að Valur færi áfram þangað til Stefan Apostolov ákvað að dæma þriðju vítaspyrnuna í uppbótartíma. Nicklas Bendtner steig aftur á punktinn og skoraði. Anton Ari var nálægt því að verja en hann varði boltann í slána og inn.

Í framhaldi af því fékk Patrick Pedersen rauða spjaldið, væntanlega fyrir mótmæli, og verður því í banni í næstu umferð en honum hafði verið skipt af velli skömmu áður.

Tap Vals staðreynd en var grátlega nálægt því að slá Rosenborg úr leik. Evrópudraumur Valsmanna er þó ekki úr sögunni en liðið mun mæta FC Santa Coloma frá Andorra á fimmtudaginn eftir viku í undankeppni Evrópudeildarinnar.    

Rosenborg 3:1 Valur opna loka
90. mín. 5 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert