„Þetta var þungt, súrt og fúlt tap“

Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það segir sig náttúrulega sjálft að þegar þú tapar leik 4:1, þá var spilamennskan ekki góð. Það þýðir ekkert að vera tína til eitthvað gott þegar þú færð svona skell,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir 4:1-tap gegn Breiðabliki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik mættu FH-ingar nokkuð öflugir inn í þann síðari og jöfnuðu metin á 55. mínútu. Blikar náðu svo öðru markinu og eftir það virtist spilamennska FH hrynja. Ólafur hrósaði Gunnleifi Vigni Gunnleifssyni í marki Breiðabliks í hástert en hann varði í tvígang frábærlega frá Steven Lennon.

„Þegar við erum að reyna að setja á þá er elsti, ef ekki besti, markvörðurinn í deildinni frábær í rammanum og heldur þeim inn í leiknum. Svo skora þeir 2:1-markið og eftir það hlupum við í skyndisóknarhnífinn hjá Blikunum. Þetta var þungt, súrt og fúlt tap.“

„Upp í fyrsta sæti er orðið helvíti langt og önnur lið eru að vinna leiki, ekki við. Við þurfum að fara vinna fótboltaleiki til að farið að tala um að vera með í einhverju sem er FH sæmandi.“

Geoffrey Castillion var ekki í leikmannahópi FH í kvöld og hafa sögusagnir verið á kreiki um að hann sé á leiðinni aftur í Víking, þar sem hann spilaði í fyrra. Ólafur vildi ekki tjá sig um möguleg félagsskipti en sagði hann þó vera í leyfi frá félaginu um þessar mundir.

„Geoffrey fékk leyfi til að fara til Hollands þar sem fjölskyldan á von á barni. Konan hans verður sett af stað á mánudag eða þriðjudag og þess vegna var hann ekki með. Svo hafa verið einhverjar sögusagnir en við skulum bara sjá hvað setur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert