Ætlum okkur að vinna þessa deild

„Þetta sýnir hversu megnugir við erum þegar menn hafa trú á sínum hæfileikum og þora að framkvæma hlutina,“ sagði Arnór Snær Guðmundsson, leikmaður ÍA, eftir 5:0-sigur á Þór í Inkasso-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Skagamenn höfðu unnið einn af síðustu fjórum leikjum sínum fyrir kvöldið.

„Við vorum að spila eins og menn eftir dapra frammistöðu í síðustu leikjum. Við brugðumst vel við því og sýndum að við erum með menn sem eru með fullt af hæfileikum. Við byrjuðum mótið vel og náðum sterkum sigrum í byrjun en svo varð þetta flatt.“

ÍA fór upp í annað sætið með sigri í kvöld en tap hefði þýtt að Skagamenn væru fimm stigum frá efstu tveimur liðunum. 

„Við vorum ákveðnir í því að það væri að duga eða drepast í þessum leik. Við ætlum okkur að vinna þessa deild, það voru yfirlýst markmið. Við hefðum verið fimm stigum eftir HK og Þór með tapi og þá hefði þetta verið erfitt.“

Arnór skoraði tvö mörk í kvöld og var hann að sjálfsögðu sáttur við það. 

„Ég fer inn í teig með því markmiði að skora, þess vegna er ég settur þangað. Nú erum við miðverðirnir búnir að skila sjö mörkum í sumar, jafnmörgum og framherjarnir og það er ánægjulegt,“ sagði Arnór Snær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert