Blikar í bikarúrslit eftir ótrúlegan leik og vítakeppni

Blikinn Gísli Eyjólfsson með boltann í leiknum í kvöld en …
Blikinn Gísli Eyjólfsson með boltann í leiknum í kvöld en til varnar eru Vignir Snær Stefánsson og Ástbjörn Þórðarson, leikmenn Víkings Ó. mbl.is/Eggert

Breiðablik leikur til úrslita í bikarkeppni karla í knattspyrnu í þriðja sinn eftir að liðið vann Víking Ólafsvík í hreint ótrúlegri undanúrslitaviðureign þeirra í Kópavogi í kvöld. Blikar jöfnuðu á síðustu sekúndu framlengingar og unnu svo í vítaspyrnukeppni. Þeir mæta Stjörnunni í úrslitum á Laugardalsvelli 15. september.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að gestirnir úr Ólafsvík myndu ekki bera neina virðingu fyrir toppliði Pepsi-deildarinnar. Eins og við mátti búast voru Blikar meira með boltann, svo til allan fyrri hálfleik, en Ólafsvíkingar vörðust gríðarlega skipulega með fimm manna vörn og djúpan miðjumann þar fyrir framan. Blikar komust því lítt áleiðis.

Á meðan var lítið að gerast fram á við hjá Víkingum – þar til þeir fengu hornspyrnu á 31. mínútu. Eftir hana barst boltinn til Gonzalo Zamorano á fjærstönginni og skoraði hann þar af stuttu færi úr fyrstu tilraun Víkings í leiknum. Staðan 1:0 fyrir gestina og sló þögn á stuðningsmenn Breiðabliks.

Blikar voru nokkra stund að átta sig á hvað gerst hafði á meðan það lifnaði yfir Ólafsvíkingum og voru þeir yfir í hálfleik, 1:0.

Stórsókn Blika skilaði loks jöfnunarmarki

Það var allt undir hjá Blikum eftir hlé en lengi vel spilaðist leikurinn svipað og í fyrri hálfleik. Gestirnir snertu vart boltann en allt stoppaði þegar Blikar náðu fram að vítateig Víkings. Það dró hins vegar heldur betur til tíðinda þegar hálftími var eftir. Fyrst átti Thomas Mikkelsen skot sem fór í samskeytin og út, en áður en sóknin var úti var Aron Bjarnason einnig búinn að þruma í þverslána á marki Víkings. Enn héldu gestirnir þó forystunni.

Blikar höfðu hins vegar komist á lagið við þessa skothríð og á 67. mínútu kom jöfnunarmark þeirra. Það skrifast hins vegar alfarið á Ólsara sjálfa, því Emmanuel Keke var að slóra með boltann í vörninni. Danski framherjinn Thomas Mikkeslen tók boltann einfaldlega af honum, hljóp í átt að marki og skoraði.

Blikum var létt eftir þetta og héldu áfram að sækja og fengu fullt af fínum færum til þess að komast yfir. Ólafsvíkingar vörðust hins vegar fimlega eins og áður í leiknum og gerðu það allt þar til venjulegum leiktíma lauk. Staðan að honum loknum 1:1 og því þurfti að framlengja.

Ótrúleg dramatík í framlengingu

Framlengingin var nokkuð opin þar sem allir börðust til síðasta dropa, en enn á ný voru það Blikar sem voru mikið meira með boltann. Aftur urðu föst leikatriði þeim hins vegar að falli, en á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingar komust Ólafsvíkingar aftur yfir.

Kwame Quee tók aukaspyrnu inn á teiginn, Blikinn Davíð Kristján Ólafsson skallaði boltann upp í loftið þaðan sem hann fór svo inn fyrir marklínuna. Sjálfsmark og Ólafsvíkingar komnir í 2:1.

Blikar höfðu 15 mínútur til þess að bjarga sér og lögðu gríðarlegt kapp á að jafna. Þeir hreinlega lágu í sókn það sem eftir lifði leiks en tíminn virtist vera að hlaupa frá þeim. Það var hins vegar á lokasekúndum í uppbótartíma framlengingar (já það gerist ekki seinna!) sem fáránlega dramatískt jöfnunarmark leit dagsins ljós.

Brynjólfur Darri Willumsson fékk þá boltann hægra megin, keyrði ákveðinn inn í teig og skoraði með hnitmiðuðu skoti á ögurstundu. Þetta reyndist síðasta spyrna framlengingarinnar og liðin á leið í vítaspyrnukeppni. Það gjörsamlega ærðist allt á pöllunum.

Bæði lið skoruðu úr sínum fyrstu spyrnum en markverðir liðanna vörðu báðir aðra spyrnu þeirra. Nacho Heras í liði Ólafsvíkur skaut svo í þverslá og reyndist það ráða úrslitum þegar yfir lauk. Damir Muminovic tók síðustu spyrnu Blika og ætlaði allt um koll að keyra þegar hann skoraði. Ótrúlegum leik lokið með sigri Breiðabliks.

Breiðablik og Stjarnan eigast því við á Laugardalsvelli 15. september.

Breiðablik 6:4 Víkingur Ó. opna loka
120. mín. Damir Muminovic (Breiðablik) skorar úr víti 6:4 - Damir laumar boltanum í hægra hornið og Blikar ærast!!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert