„Við ætlum að vinna þennan bikar

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eva Björk

Þorsteinn Halldórsson hefur verið þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu undanfarin fjögur ár og á þeim tíma hefur liðið skipað sér í fremstu röð á Íslandi. Annað kvöld mætir Breiðablik Stjörnunni í úrslitaleik Mjólkurbikarins en þá gefst Þorsteini möguleiki á að verða bikarmeistari í annað skipti á þremur árum.

Í samtali við mbl.is sagðist Þorsteinn vera bjartsýnn á gengi liðsins. Spurður út í stöðuna á leikmönnum fyrir leikinn sagði Þorsteinn að eitthvað væri um meiðsli í hópnum:

„Sam er búin að vera meidd í svolítið langan tíma og verður tæp á föstudaginn. Sólveig er búin að vera meidd undanfarið þannig að það er smá ströggl. Svo erum við búnar að vera að missa slatta til Bandaríkjanna.“

Breiðablik er sem stendur á toppi deildarinnar á meðan Stjarnan er í því fjórða, 9 stigum á eftir Breiðabliki. Inntur eftir því hvort hann væri hræddur um að leikmenn hans myndu mæta kærulausir til leiks sagðist Þorsteinn hafa litlar áhyggjur af því:

„Ég held að það mæti enginn kærulaus í bikarúrslitaleik. Þetta er tækifæri til þess að vinna titil og það mæta allir í úrslitaleik til þess að vinna hann. Það er ekki hægt að mæta kærulaus í svona verkefni og ég hef enga trú á því að við mætum á þeim nótum inn í þennan leik. Enda er engin ástæða til þess. Stjarnan er eitt af sterkustu liðum landsins og ef við eigum ekki góðan leik vinnum við ekki leikinn. Þannig að við þurfum að undirbúa okkur vel og gíra okkur vel inn í þetta og mæta tilbúin. Ég hef enga ástæðu til þess að búast við öðru.“

Eins og áður segir hefur Breiðablik misst nokkra leikmenn út í nám til Bandaríkjanna. Aðrir leikmenn hafa því þurft að stíga upp og kvaðst Þorsteinn vera mjög sáttur með frammistöðu þeirra leikmanna sem hafa verið að koma inn í liðið í undanförnum leikjum:

„Við höfum vitað þetta lengi og vorum með ákveðið plan í kringum þetta. Það hefur alveg gengið eftir og ég hef alveg fulla trúa á því að með þann hóp sem við erum með í dag getum við klárað þau verkefni sem framundan eru og næsta skref er nú á föstudaginn. Og við mætum tilbúin í þennan leik og ætlum að vinna hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert