Fótbolti snýst um getu, ekki aldur

Alexandra Jóhannsdóttir og Þorsteinn Halldórsson. Alexandra er ein þeirra ungu …
Alexandra Jóhannsdóttir og Þorsteinn Halldórsson. Alexandra er ein þeirra ungu leikmanna sem hafa slegið í gegn með Blikum í sumar. Ljósmynd/Breiðablik

„Ég er ótrúlega ánægður að hafa unnið þetta og mér fannst þetta heilt yfir vera sannfærandi sigur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, þegar mbl.is tók hann tali eftir að liðið stóð uppi sem bikarmeistari kvenna í knattspyrnu með sigri á Stjörnunni í úrslitaleik í kvöld, 2:1.

Keppnin í ár heitir Mjólkurbikarinn og eftir að bikarinn fór á loft var fagnað með mjólk og henni sprautað yfir leikmenn og þjálfara. Hvern hefði grunað að það væri svona gaman að vera baðaður í mjólk?

„Ég hafði aldrei hugsað út í það – en einu sinni er allt fyrst! Og það er ekki leiðinlegt á þessari stundu,“ sagði Þorsteinn léttur í bragði. Hann var mjög ánægður með frammistöðu liðsins.

„Ég er sáttur. Þær gátu komist yfir í byrjun en eftir að við komumst yfir þá fannst mér þetta vera nokkuð sannfærandi. Við náðum að halda skipulagi og aga og gerðum vel það sem við lögðum upp með. Ég er ótrúlega sáttur. Auðvitað fengum við mark á okkur í lokin sem mér fannst óþarfi, Sonný átti að verja það en hún vill hafa leikina spennandi,“ sagði Þorsteinn og glotti við, en Stjarnan minnkaði muninn undir lokin með marki þegar ekkert virtist stefna í það.

Breiðablik missti á dögunum þær Selmu Sól Magnúsdóttur og Andreu Rán Hauksdóttur í nám til Bandaríkjanna og voru þær ekki með í kvöld. Það virðist ekki koma neitt við liðið og sérstaklega þá ungu leikmenn sem leika stórt hlutverk.

„Það er alltaf verið að tala um einhvern aldur en fótbolti snýst um getu, ekki aldur. Þessar stelpur eru bara það góðar í fótbolta og ná að toppa á réttum stundum. Það er frábært að það sé að gerast,“ sagði Þorsteinn.

Blikar eru þó hvergi nærri saddir, en liðið á góðan möguleika á því að bæta Íslandsmeistaratitlinum í safnið í haust. Sú barátta heldur áfram strax á þriðjudag þegar liðið mætir KR.

„Við ætlum að njóta þess núna að hafa unnið en á morgun förum við að undirbúa okkur fyrir þriðjudaginn. Það er gríðarlega mikilvægur leikur og við þurfum að undirbúa hann strax á morgun. Það er hundleiðinlegt að verða bikarmeistarar en drulla svo upp á bak í næsta leik. Við þurfum að gíra okkur upp og vera klár,“ sagði Þorsteinn við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert