Síðustu dagar verið erfiðir

Eiður Aron Sigurbjörnsson átti mjög góðan leik í kvöld.
Eiður Aron Sigurbjörnsson átti mjög góðan leik í kvöld. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við vorum ömurlegir í seinni hálfleik og þetta var eins og svart og hvítt,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, leikmaður Vals, eftir 3:1-útisigur á Breiðabliki í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Valsmenn voru með 2:0-forystu í hálfleik, en Breiðablik var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og minnkaði muninn í 2:1. Valsmenn bættu hins vegar við þriðja markinu, gegn gangi leiksins, og tryggðu sér þrjú stig. 

„Við töluðum um það í hálfleik að halda áfram og drepa leikinn en ég veit ekki hvað gerðist, við reynum að bjóða þeim inn í leikinn. Við fáum á okkur óheppilegt mark en sýnum karakter að troða inn þriðja markinu og klára þetta flott. Heilt yfir var þetta ágætt.“

Eiður var ánægður með svar Valsmanna eftir afar svekkjandi tap fyrir Sheriff frá Moldóvu í Evrópudeildinni. 

„Við spiluðum báða leikina við Sheriff mjög vel og það var svekkjandi að fá á sig mark úti seint. Við vorum svo í dauðafæri að fara áfram að heimavelli svo síðustu dagar hafa verið erfiðir, því er flott að koma hingað á erfiðan útivöll og klára þetta.“

Valsmenn eru komnir aftur á toppinn og þurfa aðeins að treysta á sjálfa sig til að verja Íslandsmeistaratitilinn. 

„Þetta var flottur sigur í dag en það er nóg eftir í þessu. Stjarnan og Breiðablik eru bæði topplið og þetta verður barátta fram til síðasta leiks,“ sagði miðvörðurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert