Sara og Glódís með áfangaleiki

Sara Björk Gunnarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir í baráttu í …
Sara Björk Gunnarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir í baráttu í landsleik gegn Brasilíu. mbl.is/Golli

Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu spilar sinn 120. landsleik í dag þegar Ísland mætir Tékklandi á Laugardalsvellinum í lokaumferð undankeppni heimsmeistaramótsins 2019.

Sara er aðeins 27 ára gömul en er samt þegar orðin næstleikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi og vantar þrettán leiki til að jafna leikjamet Katrínar Jónsdóttur sem lék 133 leiki áður en hún hætti haustið 2013.

Þá leikur Glódís Perla Viggósdóttir sinn 70. landsleik í dag og það er afar athyglisverður leikjafjöldi því hún er aðeins 23 ára gömul og yngsti leikmaðurinn frá upphafi sem nær slíkum leikjafjölda í A-landsliði Íslands í kvenna- eða karlaflokki.

Glódís er einn þriggja leikmanna íslenska liðsins í dag sem hafa spilað alla tíu landsleiki ársins 2018. Hinar tvær eru Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir sem leika sinn tíunda leik á árinu eins og Glódís. Þær Rakel Hönnudóttir og Agla María Albertsdóttir gætu líka náð því. Þær hafa báðar spilað alla níu leikina til þessa og ekki er ólíklegt að önnur eða báðar komi við sögu í leiknum þegar á líður.

Leikurinn er í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert