Lukaku skoraði tvö í sigri Belga

Ísland átti litla möguleika gegn sterku liði Belgíu þegar liðin áttust við í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli í kvöld. Romelu Lukaku, sóknarmaður Manchester United, skoraði tvö mörk og fékk vítaspyrnu í 3:0 sigri Belgíu. Úr henni skoraði önnur stórstjarna, Eden Hazard. Þau tíðindi urðu í leiknum að Kolbeinn Sigþórsson kom inn á sem varamaður og lék sinn fyrsta landsleik síðan í 8-liða úrslitum EM í Frakklandi sumarið 2016.

Íslendingar voru ferskir til að byrja með í leiknum en smám saman jókst sóknarþungi Belga. Eftir um 25 mínútna leik voru Belgarnir komnir með tök á leiknum en voru þó ekki búnir að skapa sér dauðafæri.

Hazard skoraði fyrsta markið á 29. mínútu. Skoraði af öryggi úr vítaspyrnu sem dæmd var á Sverri Ingason fyrir að toga í Lukaku. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Lukaku af stuttu færi eftir hornspyrnu og skalla Vincent Kompany.

Var staðan því 2:0 að loknum fyrri hálfleik. Þannig var staðan lengi vel eða þar til á 81. mínútu þegar Lukaku innsiglaði sigur Belgíu. Aftur af stuttu færi en að þessu sinni eftir fyrigjöf frá hægri. Rétt áður hafði Birkir Már Sævarsson bjargað á marklínu eftir hornspyrnu.

Íslenska liðið var í hálfgerðum eltingaleik í kvöld enda andstæðingurinn eitt allra sterkasta lið heims um þessar mundir. Belgar héldu boltanum vel og voru í litlum vandræðum eftir að þeir tóku forystuna í leiknum. Sigur þeirra var sanngjarn. Íslenska liðið var þó baráttuglaðara og einbeittara en í síðasta leik gegn Sviss. 

Segja má að besta færi Íslands hafi komið eftir ágæta sókn á 14. mínútu eða í stöðunni 0:0. Jón Daði komst þá fram hægri kantinn og gaf fyrir á Gylfa sem kom á ferðinni á nærstönginni en varnarmaður komst fyrir skotið. Gylfi átti síðan fast skot frá vítateigslínu í stöðunni 0:2 í síðari hálfleik en Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid, var vel staðsettur og sló boltann frá. 

Ísland tapaði 6:0 fyrir Sviss í fyrsta leiknum í riðlinum en þetta er fyrsti leikur Belganna sem fengu bronsverðlaunin á HM í Rússlandi í sumar. 

Var þetta annar leikur Íslands undir stjórn Svíans Eriks Hamrén. Fyrir Hamrén er niðurstaðan ekki uppörvandi eða tvö töp og markatalan 0:9. En hann á eftir að fá tíma til að setja svip sinn á liðið og nýtekinn við. 

Ísland 0:3 Belgía opna loka
90. mín. Rússneski dómarinn lætur Lukaku komast upp með að slá til Ragnars Sigurðssonar sem ætlaði að toga hann á fætur á miðjum vellinum!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert