Vel hitað upp fyrir úrslitaleikinn

Baldur Sigurðsson og Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliðar Stjörnunnar og Breiðablks, halda …
Baldur Sigurðsson og Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliðar Stjörnunnar og Breiðablks, halda í verðlaunagripinn sem aðeins annar þeirra fær að fagna á laugardaginn. mbl.is/Hari

Stuðningsmannahópar Breiðabliks og Stjörnunnar munu eflaust fjölmenna á Laugardalsvöll á laugardagskvöld þar sem úrslitin ráðast í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu.

Blikar hafa ákveðið að vera með fjölskylduhátíð í Þróttaratjaldinu í Laugardal, rétt við völlinn, þar sem boðið verður upp á pylsur og drykki, sem og hoppukastala og andlitsmálningu fyrir börnin. Verður svæðið opið frá kl. 16 en leikurinn sjálfur hefst kl. 19.15.

Stjörnumenn verða sömuleiðis með fjölskylduhátíð á heimavelli sínum, Samsung-vellinum í Garðabæ, og stendur hún yfir frá kl. 16-17.45. Rútur munu svo ferja mannskapinn á Ölver í Glæsibæ þaðan sem gengið verður með Silfurskeiðinni á völlinn. Meðlimir Silfurskeiðarinnar ætla að hittast snemma á Ölveri og hita þar vel upp en á fjölmiðlafundi vegna úrslitaleiksins í Laugardal í dag kvaðst Victor Ingi Olsen, rekstrarstjóri meistaraflokka Stjörnunnar, þó léttur í bragði vongóður um að sú upphitun hæfist eftir hádegi.

Miðasala á leikinn er á tix.is og kostar 2.000 krónur fyrir fullorðna en frítt er fyrir börn 16 ára og yngri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert