Ánægður með mínar stelpur

Ian Jeffs.
Ian Jeffs. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV sigraði HK/Víking með fimm mörkum gegn einu í dag þegar liðin áttust við í Vestmannaeyjum í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu þetta árið. Leikurinn hafði litla þýðingu fyrir liðin sem eru ekki að keppa að neinu við miðju deildarinnar.

Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, var augljóslega sáttur með spilamennsku síns liðs.

„5:1 er alltaf sanngjarnt, við spiluðum virkilega góðan fyrri hálfleik og í seinni hálfleik er þetta oft þannig þegar þú ert fjórum mörkum yfir og búinn að rúlla upp fyrri hálfleiknum að það er erfitt að fara út í seinni að gera það sama. Mér fannst við eiga fínan seinni hálfleik þrátt fyrir þetta mark sem þær skora og ég er ánægður með mínar stelpur.“

Lið gestanna kom allt öðruvísi út í seinni hálfleikinn en ÍBV átti svör við því.

„Jú, það gerist alltaf, þegar lið lenda undir og fara undir 4:0 í hálfleik, að þær koma út brjálaðar. Ég sagði við okkar stelpur að við þyrftum að vera tilbúnar í fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik því ég vissi hvernig þær myndu koma út. Þetta var tíu mínútna kafli þar sem þær voru að pressa á okkur en eftir það fannst mér við taka stjórnina aftur.“

Cloé Lacasse átti góðan leik í liði ÍBV og skoraði fjögur mörk í öllum regnbogans litum.

„Hún var líka svona á móti Grindavík um daginn, þar náði hún bara ekki að skora, í dag nýtti hún færin sín vel og skoraði fjögur mörk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert