Breiðablik Íslandsmeistari 2018

Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu með 3:1 sigri á Selfossi í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna, Pepsi-deildarinnar, á Kópavogsvelli í dag. Einni umferð er ólokið en nú er ljóst að Þór/KA getur ekki náð Breiðabliki. 

Breiðablik sigraði einnig í bikarkeppninni og vinnur því tvöfaldan sigur í sumar. Breiðablik er með 46 stig á toppnum en Þór/KA 41 eftir stórsigur á Val í dag.  Selfoss siglir lygnan sjó með 17 stig.

Leikmenn Breiðabliks voru fremur taugaveiklaðir í fyrri hálfleik enda mikið í húfi. Selfyssingar nýttu sér það og tóku óvænt forystuna með glæsilegu marki frá Grace Rapp sem skoraði með hörkuskoti á 23. mínútu. Staðan var 1:0 að loknum fyrri hálfleik og blikur á lofti í toppbaráttu deildarinnar. 

Breiðablik fékk hins vegar óskabyrjun í upphafi síðari hálfleiks þegar markahæsti leikmaður deildarinnar, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, skoraði eftir undirbúning Hildar Antonsdóttur á 50. mínútu. Aðeins mínútu síðar skoraði Alexandra Jóhannsdóttir í opið mark Selfoss eftir mistök Emmu Higgins sem lék sinn fyrsta leik í marki Selfoss í sumar. 

Þegar staðan var orðin 2:1 gátu Blikar andað léttar og leikmenn róuðust nokkuð. Selfyssingar voru þó ekki hættar og á 69. mínútu átti Unnur Dóra Bergsdóttir sláarskot. 

Blikar sluppu þar með skrekkinn en gerðu út um leikinn á 73. mínútu. Alexandra skoraði sitt annað mark með skalla eftir fyrirgjöf Öglu Maríu Albertsdóttur. Berglind reyndi að hjálpa boltanum yfir marklínuna en væntanlega er markið skráð á Alexöndru. 

Aðstæður voru fremur skrautlegar á Kópavogsvelli í dag og síbreytilegar. Hægviðri var og hálfskýjað þegar leikurinn hófst. Snemma í síðari hálfleik var hins vegar vindurinn orðinn talsverður og úrhellisrigning. Íslenskara verður það ekki. 

Breiðablik 3:1 Selfoss opna loka
90. mín. Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert