KR sendi Grindavík niður um deild

Linda Eshun hjá Grindavík verst KR-ingnum Miu Gunter í leiknum …
Linda Eshun hjá Grindavík verst KR-ingnum Miu Gunter í leiknum í Vesturbænum í dag. mbl.is/Hari

KR tryggði áframhaldandi veru í efstu deild kvenna í fótbolta með 2:1-sigri á Grindavík á heimavelli sínum í dag. Grindavík er hins vegar fallið úr deildinni fyrir vikið eftir tveggja ára veru á meðal þeirra bestu.

Leikurinn fór rólega af stað og kom fyrsta skotið ekki fyrr en á 20. mínútu, en það var einmitt fyrsta mark leiksins. Hugrún Lilja Ólafsdóttir átti þá fyrirgjöf beint á Katrínu Ómarsdóttur sem stýrði boltanum í netið með höfðinu.

Grindavík var meira með boltann eftir markið, en það gekk illa að skapa alvörufæri á móti KR-liði sem var ávallt hættulegt er það sótti hratt. Það vantaði hins vegar góð færi báðum megin og var staðan í leikhléi því 1:0, KR í vil.

Betsy Hassett fékk gott færi snemma í síðari hálfleik en hún setti boltann fram hjá af stuttu færi. Á 58. mínútu skaut Sofía Elsie Guðmundsdóttir í slá úr góðu færi og Katrín Ómarsdóttir náði ekki að skora úr frákastinu.

Grindavík pressaði nokkuð á mark KR undir lokin en Ingibjörg Valgeirsdóttir varði tvívegis gríðarlega vel er Grindavík komst í góð færi. Ingunn Haraldsdóttir skoraði annað mark KR í blálokin með skalla eftir hornspyrnu og var staðan orðin 2:0. Rio Hardy lagaði stöðuna í blálokin með skallamarki en nær komst Grindavík ekki. 

KR 2:1 Grindavík opna loka
90. mín. Leik lokið Grindavík er fallið en KR er búið að bjarga sér!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert