Hef sjaldan verið jafnniðurlægður

Ólafur Páll Snorrason hefur áhuga á því að halda áfram …
Ólafur Páll Snorrason hefur áhuga á því að halda áfram sem þjálfari Fjölnis. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er voða lítið hægt segja eftir svona leik. Ég hef sjaldan verið niðurlægður eins mikið og í dag,“ sagði Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir að liðið hans fékk útreið gegn Fylki í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Árbænum í dag en leiknum lauk með 7:0-sigri Árbæinga.

„Það átti ekki að vera erfitt fyrir menn að gíra sig upp í þennan leik. Þetta snerist fyrst og fremst um stolt Fjölnis og þá finnst mér skrítið ef mönnum fannst erfitt að gíra sig upp fyrir leikinn. Auðvitað er það persónubundið, hvernig menn sjá hlutina, en það á ekki að skipta neinu máli þótt við höfum verið fallnir fyrir lokaumferðina.“

Guðmundur Karl Guðmundsson lét reka sig af velli á 52. mínútu en hann virtist segja eitthvað við Helga Mikael, dómara leiksins. Ólafur telur að það hafi ekki hjálpað liðinu mikið en það leit út eins og Guðmundur væri að reyna að láta reka sig af velli.

Fjölnismenn fengu útreið í Árbænum í dag og töpuðu 7:0 …
Fjölnismenn fengu útreið í Árbænum í dag og töpuðu 7:0 fyrir Fylki í lokaumferð Pepsi-deildarinnar. mbl.is/Hari

Hefur áhuga á að halda áfram

„Það er fáránlegt að segja það núna en mér fannst við byrja leikinn vel og við spiluðum vel, fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar. Síðan skora þeir þetta fyrsta mark, sem við nánast gefum þeim, og þá hrundi þetta hjá okkur. Það hjálpaði okkur ekki að missa mann af velli og ég veit hreinlega ekki hvað Gummi sagði við dómarann. Fyrir mér leit þetta út eins og hann nennti þessu ekki og væri að reyna láta reka sig út af því mér sýndist Gummi hrækja í áttina að dómaranum og það var hárrétt ákvörðun að reka hann af velli, ef þetta var það sem gerðist.“

Ólafur hefur áhuga á því að halda áfram sem þjálfari Fjölnis en samningur hans við félagið rann út í dag.

„Ég mun setjast niður á mánudaginn með stjórn Fjölnis en eftir svona afhroð þá er erfitt að vera jákvæður. Ég hef áhuga á því að hjálpa til hjá Fjölni, ef minna krafta verður óskað. Samningur minn rennur hins vegar út í dag og það þarf að vera vilji hjá báðum aðilum til þess að halda samstarfinu áfram. Ég hef gert mikið af mistökum í sumar og á kannski ekki skilið að halda áfram með liðið, en það þarf að koma í ljós,“ sagði Ólafur Páll Snorrason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert