„Hef aldrei séð annað eins“

Ragnar Sigurðsson hélt vel aftur af Olivier Giroud í kvöld.
Ragnar Sigurðsson hélt vel aftur af Olivier Giroud í kvöld. AFP

„Þetta eru ótrúlega góð úrslit fyrir okkur, þó að við séum fáránlega svekktir með að missa þetta niður. Við getum verið stoltir,“ sagði Ragnar Sigurðsson eftir 2:2-jafntefli Íslands við heimsmeistara Frakklands í Guingamp í kvöld.

„Það var svolítið klaufalegt að missa þetta niður, en við vorum líka óheppnir. Hann hefði kannski alveg getað sleppt því að dæma þetta víti. Ég átti líka skalla og hefði getað bætt við marki þá, en hann náði einhvern veginn að verja og svo var dæmd á okkur rangstaða. En já, í heildina var þetta mjög flottur leikur,“ sagði Ragnar og óhætt að taka undir það. Ragnar og Kári léku frábærlega saman í hjarta íslensku varnarinnar, eins og þeir hafa gert svo oft á síðustu árum. Þeir réðu hins vegar ekki við Kylian Mbappé, ekki frekar en flestir, en ungstirnið lék laglega fram hjá Ragnari í aðdraganda fyrra marks Frakka.

„Þetta gerðist mjög hratt. Ég þarf að sjá þetta sjálfur aftur. Ég vissi að hann væri með þennan hraða og tek ákvörðun um að reyna að vera nálægt honum og vinna boltann. Ég snerti boltann og var að vona að hann færi út af, en hann er svo fljótur að hann náði honum aftur. Svo neglir hann inn í og við erum óheppnir með hvernig boltinn fer inn í markið. Maður þarf að taka ákvörðun á innan við sekúndu,“ sagði Ragnar sem gæti hafa verið að spila við leikmann sem verður besti leikmaður heims mörg næstu ár. Hæfileikarnir eru alla vega gríðarlegir:

„Ég hef aldrei séð annað eins, hvernig hann getur breytt um stefnu á svona miklum hraða. Þó að ég hefði vitað hvað hann ætlaði að gera þá getur vel verið að hann hefði samt getað hlaupið fram hjá mér. Ég tók ákvörðun og var óheppinn að snertingin í boltann var ekki nógu mikil til að hann færi í horn. Svona er þetta,“ sagði Ragnar. Aðspurður hvort ekki hefði verið gott að spila aftur við hlið Kára svaraði Ragnar:

„Við höfum spilað saman í mörg ár og þekkjum hvor annan út og inn. Jú, jú, það var bara mjög gaman að spila með Kára aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert